*

Bílar 6. nóvember 2015

Bertha Benz og upphaf bílaaldarinnar

Upphaf bílaframleiðslu má rekja til tímamótalangferðar Frú Berthu Ringer Benz á bifreið úr smiðju eiginmanns hennar.

Haraldur Guðjónsson
 - hag@vb.is

Það kann að hljóma undarlega í eyrum nútímamannsins en á ofanverðri 19. öld var það ekki almenn  skoðun að bíllinn yrði framtíðarsamgöngumáti manna. Raunar var það svo að í Þýskalandi voru bæði stjórnvöld og kirkjan á móti hestlausa vagninum svokallaða og lögðu stein í götu  þeirra sem unnu að þróun  hans. Farartækið  þótti  hættulegt, hávært og alls ekki henta í langferðir. Það var ekki fyrr en 39 ára gömul fjögurra barna húsmóðir í Mannheim í Þýskalandi fékk nóg af úrtöluröddum og uppgjafarvæli og tók  málin í sínar hendur að almenningsálitið fór að snúast bifreiðum í hag. 

Í ágústmánuði 1888 laumaði Bertha Benz, ásamt sonum sínum, bílnum Patent Motorwagen No.  3 út  af  verkstæðinu. Héldu þau í fyrstu langferð sem farin hafði verið í bíl. Þau óku 104 kílómetra leið frá Mannheim til Pforzheim þar sem þau dvöldu hjá móður Berthu í þrjá daga og fóru síðan aðra leið aftur til Mannheim. Samtals ók hún 194 kílómetra í þessari langferð. 

Þetta ferðalag vakti að vonum gríðarmikla athygli. Margir sjónarvottar voru að bílferðinni og sýndu blöðin henni mikinn áhuga. Í kjölfarið tók almenningsálitið að snúast bílnum í hag. Brátt fór Benz að berast pantanir á bílum og hagur fyrirtækis og fjölskyldu tók að vænkast. Undir  lok  nítjándu  aldarinnar  voru  þau  orðin  stærstu bílaframleiðendur í heimi, en árið 1899 framleiddi Benzfyrirtækið heilar 572 bifreiðar.

Fjallað er nánar um Berthu Benz í Eftir vinnu, fylgiriti Viðskiptablaðsins, sem er nýkomið út. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.