*

Veiði 24. ágúst 2018

Besta veiðin í fimm ár

Það sem af er sumri hafa flestir laxar komið á land í Þverá og Kjarrá.

Trausti Hafliðason

Veiði í Þverá og Kjarrá hefur ekki verið betri í fimm ár. Um síðustu mánaðamót voru 1.975 laxar komnir á land eða tæplega 600 fleiri en á sama tíma í fyrra.  

Þverá/Kjarrá á upptök sín í votlendi Tvídægru og Arnarvatnsheiðar. Fyrir þá sem ekki vita þá er Þverá og Kjarrá í raun sama áin. Kjarrá nefnist efsti hluti árinnar, sem teygir sig upp á hálendi en Þverá er neðri hlutinn, sem rennur um Þverárhlíð og í Hvítá. Til þess að flækja þetta aðeins þá er einnig talað um miðhluta árinnar, milli Þverár og Kjarrár, sem Örnólfsdalsá. Gamla göngubrúin við bæinn Norðtungu, sem gerð var upp fyrir nokkrum árum, er sem dæmi við Örnólfsdalsá.

Besta árið var 2005

Þegar tölur aftur til ársins 2010 eru skoðaðar kemur í ljós að veiðin á þessum tímapunkti hefur einungis tvisvar sinnum verið betri. Árið 2010 voru 2.445 laxar komnir á land um mánaðamótin júlí/ágúst og árið 2013 höfðu 2.107 laxar veiðst á þessum tímapunkti. Árið 2010 veiddust í heildina 3.760 laxar í Þverá og Kjarrá sem er næstmesta veiði frá því að farið var að taka saman tölur um laxveiði árið 1974. Besta árið í Þverá og Kjarrá var 2005 en þá veiddust 4.165 laxar.

Meðalveiðin í Þverá og Kjarrá frá árinu 2010 eru 2.152 laxar. Ljóst er að veiðin í ár mun fara vel yfir þetta meðaltal. Eignarhaldsfélagið Starir hefur verið með ána á leigu frá árinu 2011 en félagið er í eigu Ingólfs Ásgeirssonar, Halldórs Hafsteinssonar og Davíðs Mássonar.

Þegar Viðskiptablaðið heyrði í Davíð fyrir rúmri viku sagði hann að aðeins hefði dregið úr tökunni síðustu daga. Stórstreymt var um miðja síðustu viku og sagði hann að nokkuð af nýjum fiski hefði skilað sér upp í ána þá.

„Ég held að það verði ansi hæpið að við förum yfir þrjú þúsund laxa þetta sumarið,“ segir hann. „Ég gæti trúað því að við myndum enda í um 2.600 löxum.“

Davíð segir að þótt áin fari ekki upp í þrjú þúsund laxa sé veiðin búin að vera frábær í sumar.

„Þessi veðrátta, sem hefur verið að stríða höfuðborgarbúum, hentar afskaplega vel til laxveiða. Það hefur verið mjög gott vatn í ánni í allt sumar og ekki útlit fyrir annað en að það haldist þannig út veiðitímabilið. Þetta er mikil breyting því síðustu ár hafa verið miklir þurrkar og vatnsstaðan oft léleg. Í sumar hefur reyndar stundum verið of mikið vatn en það er þó betra en of lítið vatn.“

Síðsumars hefur veiðin oftar en ekki verið betri í Kjarrá en Þverá.

„Þegar það fer að hausta þá dreifist veiðin betur í Kjarrá, það eru fleiri staðir inni. Miðað við vatnsstöðuna núna þá á ég von á að Þverá verði á mjög góðu róli út ágúst. Það er fullt af fiski í báðum ánum og alveg á hreinu að veiða og sleppa fyrirkomulagið er að skila sér. Stórlaxinn var á miklu undanhaldi fyrir nokkrum árum en hann er að koma til baka, sem er gríðarlega jákvætt.“

Ekkert kjarr við Kjarrá

Davíð segir að Þverá og Kjarrá séu mjög ólíkar.

„Þegar veiðimenn eru í Kjarrá þá eru þeir nánast komnir upp á hálendi. Laxinn gengur hvergi lengra upp í land á Íslandi en í Kjarrá. Kjarrá rennur víða í gljúfrum og þar er allt annar gróður en við Þverá. Þótt Kjarrá heiti þessu nafni þá er ekkert kjarr við Kjarrá. Kjarrá er erfiðari yfirferðar en Þverá og það er mikil áskorun að veiða hana vel. Við bjóðum veiðimönnum að fara á hestum upp með Kjarrá og það eru alltaf einhverjir sem vilja það enda mikil rómantík að ferðast þannig meðfram ánni. Að því sögðu finnst mér báðar árnar algjörar perlur.“

Eins og áður sagði tóku Starir ána á leigu haustið 2011. Sá samningur var til fimm ára og var fyrsta veiðisumarið undir Störum árið 2012. Davíð segir að samningurinn hafi verið endurnýjaður í fyrra og Starir verði með Þverá og Kjarrá á leigu til ársins 2022. Davíð segir að uppselt hafi verið í Þverá og Kjarrá í sumar eins og síðustu ár.

Nýjustu veiðitölur má skoða hér.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér