*

Bílar 5. júlí 2017

Besti Opelinn til þessa

Nýr Opel Insignia Grand Sport er nýjasta kynslóð millistærðar fólksbílsins frá þýska bílaframleiðandanum í Russelsheim.

Róbert Róbertsson

Forverinn var valinn Bíll ársins í Evrópu þegar hann kom á markað árið 2009 og hefur reynst vinsæll í Evrópu og víðar. Hann hefur selst í alls 900 þúsund eintökum. Opel eru sérstaklega vinælir bílar í Hollandi, Danmörku og heimalandinu Þýskalandi en merkið hefur ekki náð fótfestu hér á landi eftir erfiðleika hér heima í byrjun þessarar aldar. Fram að því hafði Opel verið vinsælt merki hér heima og Astra og Vectra, undanfari Insignia, voru báðir miklir sölubílar. Nýr Opel Astra kom á markað á síðasta ári og fékk mjög góðar viðtökur. Astra hefur verið söluhæsti bíll Opel um árabil. Nú kemur nýr Insignia og stefnir á að auka enn frekar á vinsældir merkisins. Bíllinn var frumsýndur á bílasýningunni í Genf í vor og er nú á leið á markaði um heim allan.

Ekta þýsk hönnun 

Hönnunin á hinum nýja Opel Insignia Grand Sporter er vel heppnuð og hann er flottari en forverinn að flestöllu leyti. Eins og nafnið bendir til kynna er hann sportlegri í hönnun og aksturseiginleikum. Framendinn er laglegur með flottum LED ljósum sem minna eilítið á nýju Audi línuna. Þetta eru sérlega tæknileg ljós og kallast Matrix LED tækni sem fyrirtækið hefur þróað. Ljósin eru með óvenju mörgum LED geislum og hafa þegar unnið til verðlauna fyrir hugvit og öryggisþáttinn. Yfirbragð bílsins er sportlegt og flott. Þaklína bílsins lækkar aðeins þegar aftar dregur og gefur bílnum svolítinn coupe blæ sem er alltaf smart. Að aftan eru löng LED ljósin senuþjófurinn og koma mjög flott út.

Innanrýmið er mjög laglegt og veglegra en ég hef séð áður í Opel. Það minnir á dýrari merki, þýsku lúxusbílana. Opel er greinilega að sækja í sig veðrið hvað þetta varðar. Það fer vel um ökumann og farþega í þessum bíl. Það er vel vandað til verka í Russelsheim með þetta nýjasta flaggskip þar á bæ. Þetta er ekta þýsk hönnun frá a til ö.

Prýðilegur í akstri 

Reynsluakstursbíllinn er með 1,5 lítra bensínvél sem skilar 165 hestöflum. Þetta er fínasta afl fyrir þennan bíl. Hámarkstogið er 250 Nm. Það er helst í upptakinu sem manni finnst vanta aðeins meira tog sem díselvélar gefa og rafmagn. Bíllinn er 8,9 sekúndur úr kyrrstöðu í hundraðið. Aksturseiginleikarnir eru prýðilegir hvort sem ekið er innanbæjar eða úti á hraðbrautunum. Í beygjum liggur bíllinn vel og kemur raunar á óvart að mörgu leyti hversu góður akstursbíll hann er. Á Autobahn-hraðbrautinni fer hann létt með hraðann og liggur vel og þétt á veginum.

Hámarkshraði bílsins er 225 km/klst. þannig að hann þolir hraðan akstur vel. Það er sérlega gaman að keyra í Sportakstursstillingunni sem gefur aðeins meiri sporttilfinningu en í Tour-stillingunni. Lítið sem ekkert veghljóð heyrist inn í bílinn og þéttleikinn er góður eins og oftast er í þýskum bílum. Þetta er í mínum huga besti Opelinn til þessa.Notkun léttari málma hefur létt bílinn um 175 kg og gefur honum því enn meiri léttleika og lipurð.

Nánar er fjallað um Opelinn í blaðinu Bílar, fylgiriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast eintak af blaðinu hér.

Stikkorð: Opel  • besti  • Insignia