*

Tölvur & tækni 4. desember 2018

Bestu hljómgæðin á markaðnum

Sennheiser hefur gefið út sín fyrstu fyllilega þráðlausu eyrnatól. Hljómgæðin eru sögð þau bestu í sínum flokki.

Júlíus Þór Halldórsson

Þýska hljómtæknifyrirtækið Sennheiser, eitt þekktasta og virtasta vörumerki heims á sínu sviði, hefur gefið út sín fyrstu fullkomlega þráðlausu eyrnatól. Tæknivefurinn The Verge segir hljómgæðin þau bestu sem sést hafi í slíkum eyrnatólum.

Fyrir rétt um tveimur árum síðan gaf Apple út AirPods; fullkomlega þráðlaus eyrnatól, sem ólíkt flestum þráðlausum eyrnatólum sem á undan höfðu komið, tengdust ekki aðeins þráðlaust við símann eða tölvuna, heldur var engin snúra milli stykkjanna heldur.

AirPods voru ekki fyrstu slíku eyrnatólin á markaðnum, en eins og með svo margar aðrar tækninýjungar gerðu þau tækni sem var tiltölulega óþekkt og að stíga sín fyrstu skref á markaðnum að næstu tískubylgju í tækniheiminum. Í kjölfarið kepptust raftækjaframleiðendur við að markaðsetja sambærileg tæki.

AirPods voru þó aldrei hönnuð eða markaðssett með bestu hljómgæðin á markaðnum í huga, heldur frekar þægindi, einfaldleika og áreiðanleika. Það er ekki þar með sagt að hljómgæðin séu léleg, þau eru það alls ekki, en þau eru ekki þau bestu á markaðnum.

Nú hefur Sennheiser hinsvegar gefið út einmitt það: fullkomlega þráðlaus eyrnatól sem bera nafnið Momentum True Wireless, og The Verge fullyrðir, eins og fram kom að ofan, að hafi bestu hljómgæði á markaðnum í sínum flokki.

Fyrir utan bestu hljómgæði sem völ er á er mikið lagt uppúr hönnuninni og yfirbragðið í takt við orðstír fyrirtækisins. Tólin eru einnig sögð afar þægileg, og innbyggði hljóðneminn mjög góður. Þau eru svo geymd í hulstri sem, líkt og með AirPods, hleður þau sjálfkrafa og getur fyllt 4 tíma rafhlöðuna tvisvar, sem gefur samtals 12 tíma endingu ef bæði tólin og hulstrið eru fullhlaðin. Hulstrið er hlaðið með USB-C snúru, sem telja verður mikinn kost í dag, þegar flestir símar og snjalltæki sem ekki nota lokaðan staðal (eins og ónefndur tæknirisi með höfuðstöðvar í Cupertino í Kaliforníufylki) hafa skipt úr Micro-USB yfir í USB-C. Þá er það talið þeim til tekna að ólíkt AirPods veita tólin mikla hljóðeinangrun.

Tólin eru þó ekki gallalaus. Sett er út á óþarflega flóknar skipanir, en meðal annars þarf að banka þrisvar á vinstra tólið til að fara eitt lag til baka. Þá er tenging tólanna bæði við afspilunartækið, og hvort annað, sögð léleg á köflum, og í ofanálag er verðið tvöfalt á við AirPods: um 300 Bandaríkjadalir. Sé miðað við verðmun AirPods hérlendis og í Bandaríkjunum má gera ráð fyrir 50 þúsund króna verðmiða hér heima, og sé nýlegt gengisfall krónunnar tekið með í reikninginn er ekki ósennilegt að það verði nær 60 þúsund.

Ljóst er þó að fyrir þá sem láta sér ekkert annað duga en það besta, og hafa þolinmæði í að venjast skipununum og endurtengja tólin við símann annað slagið, er kominn nýr valkostur sem mörgum mun finnast aðlaðandi.

Stikkorð: Sennheiser