*

Ferðalög & útivist 11. nóvember 2013

Hótel fyrir jólabörn á öllum aldri

Ef stinga á af um jólin þá er ýmislegt annað í boði en sólarströnd. Til dæmis bara flug til London og síðan er tekin lest á þessi hótel.

The Telegraph hefur tekið saman lista yfir huggulegustu og bestu hótelin sem hægt er að heimsækja yfir hátíðirnar. 

Hótelin eru öll falleg og mundu flest sóma sér vel í hvaða jólakvikmynd sem er. Lítum á nokkur: 

Armathwaite Hall í Keswick býður upp á mjög stífa jóladagskrá. Á hótelinu eru 42 herbergi sem eru hlaðin jólaskrauti og fallegu útsýni yfir stöðuvatn. Á aðfangadagskvöld syngja allir saman jólalög og fara síðan í messu. Daginn eftir, á jóladag, er síðan sex rétta hádegisverður og jólahlaðborð um kvöldið. 

Í Affric Lodge þarf fólk ekki að taka þátt í skipulagðri jóladagskrá frekar en það vill því setrið má leigja í heild sinni. Í því eru átta svefnherbergi og einnig er lítið þriggja svefnherbergja hús á lóðinni. Hægt er að ganga um gullfallegt svæðið í kringum hótelið, veiða fisk og sitja síðan með drykk í fallegri stofunni og horfa á sólina setjast. 

Best Western Mosborough Hall er svo sannarlega draumahótel allra jólabarna. Fólk getur leigt út allt hótelið fyrir 100 nánustu vini og fjölskyldumeðlimi og haldið jólaball. Gestir fá te við komuna, fordrykk og síðar þriggja rétta kvöldverð. Jólasveinninn kemur í heimsókn (alvöru hreindýr kostar aukalega) og síðan er dansað fram á nótt. Daginn eftir fá allir morgunverð og síðan húrrast allir heim. 

Hér má lesa nánar um hótelin jólalegu á The Telegraph. 

 

 

 

Stikkorð: Hótel  • Lúxushótel  • Jólahótel  • Jólaspól  • Jólastuð