*

Veiði 5. janúar 2014

Bestu veiðihús landsins

Viðskiptablaðið fékk stjórnendur 22 fyrirtækja til að leggja mat á það hvar bestu veiðihús landsinsværu. Alls voru 17 veiðihús nefnd.

Flottasta veiðihúsið er eflaust við Selá. Dýrt og íburðarmikið. Þar færi alveg jafn vel um veiðimenn þótt íburðurinn væri heldur minni og veiðin yrði sennilega svipuð.“ Þessi setning lýsir viðhorfi margra þegar þeir eru spurðir um flottasta veiðihús landsins. Það fer ekki á milli mála að við Selá hefur verið reist íburðarmesta veiðihús landsins. Það er glæsilegt og aðstaða til fyrirmyndar. Veiðimenn eru samt líka að leita að upplifun þótt þeir vilji flestir hafa lágmarksþægindi. „Veiðihús eru spurning um stemningu sem er erfitt að festa fingur á og auðvitað hefur veiðin áhrif á upplifun manns af veiðihúsinu,“ er kannski önnur setning sem lýsir þessu ágætlega.

Topparnir spurðir
Viðskiptablaðið spurði 22 æðstu stjórnendur fyrirtækja hvert væri besta veiðihús landsins. Setningarnar hér að ofan eru teknar úr skriflegum svörum tveggja framkvæmdastjóra. Svörin áttu það sameiginlegt að vera fjölbreytt. Mælistikan á besta veiðihúsið er nefnilega ekki stöðluð. Eftir hverju eru menn að leita? Lúxus, sveitastemningu, náttúrufegurð, veislumat, partýhúsi eða bara ódýrri gistingu yfir blánóttina? Annað sem skekkir eðlilega niðurstöðuna er að þótt menn séu víðförlir í veiðinni hafa ekki allir komið í öll veiðihús landsins. Þetta er líka tilfinningamál og menn tengjast ánni „sinni“ sem þeir sækja heim árlega. Niðurstaðan var samt sú að þrjú veiðihús voru nefnd oftast: veiðihúsið Lundur við Hítará, Fossberg við Selá í Vopnafirði og Fossás við Grímsá. Og þessi hús eru ólík innbyrðis.

Ólík hús
Fossgerði við Selá var tekið í notkun í fyrra. Má líkja því við hótel með þarfir stangveiðimanna, veiðileiðsögumanna og starfsfólks í huga. Og það er ekki hægt að setja út á neitt við húsið. Þó er eitt sem öll ný hús líða fyrir. Þau eiga það til að vera ópersónuleg og kuldaleg. Eins vantar söguna sem mörg veiðihús hafa að geyma þar sem stangaveiðimenn hafa komið saman og sagt sögur í áranna rás. En það mun breytast í Selá enda metnaðarfull uppbygging sem á sér stað í Vopnafirði. Það vantar ekki söguna í Lundi við Hítará, sem Jóhannes á Borg reisti á fjórða áratug síðustu aldar. Og þótt þar sé að finna þröng herbergi, aðeins tvö salerni og litla borðstofu, heillast fólk strax af húsinu eins og niðurstaðan hér sýnir. Staðsetning þess og aðkoma er einstök. Úr setustofu er fallegur gluggi yfir frægan veiðistað, Breiðina, og einnig er að finna frægt safn uppstoppaðra fugla og gamlar veiðistangir.

Áramót, tímarit Viðskiptablaðsins, kom út á mánudaginn. Í blaðinu eru auk umfjöllunarinnar um Kardashian-fjölskylduna, viðtal við Illuga Gunnarsson menntamálaráðherra, Ásdísi Kristjánsdóttur hagfræðing, Þorstein Baldur Friðriksson, stofnanda Plain Vanilla, og Hugleik Dagsson svo dæmi séu nefnd. Þá er umfjöllun um veiði, Kardashian-hagkerfinu gerð skil sem og launum helstu knattspyrnumanna. Að auki er margt, margt fleira....

Stikkorð: Hítará