*

Heilsa 1. desember 2012

Betra að komast alltaf í kjólinn

Viðmælendur Viðskiptablaðsins segja að það sé betra að gera hreyfingu og hollt mataræði að lífsstíl en ekki átaki í skamman tíma.

Gísli Freyr Valdórsson

 

Flestir hafa eflaust séð auglýsingar í gegnum árin þar sem líkamsræktarstöðvar auglýsa átaksnámskeið, t.d. þar sem fólk er hvatt til að koma sér „í kjólinn fyrir jólin“ svo dæmi sé tekið. Það að fólk vilji koma sér í form fyrir ákveðna viðburði afmarkast ekki eingöngu við jólin, heldur einnig við sumarfrí, giftingar, stórafmæli og fleira.

Nú þegar tæpur mánuður er til jóla eru eflaust margir sem stefna að því að ná árangri í líkamsræktinni fyrir jólin og vonandi lengur. Með það í huga er rétt að heyra í fólkinu sem starfar í þessum geira og hefur fylgst með fólki setja sér markmið í gegnum árum. Arnaldur Birgir Konráðsson, framkvæmdastjóri Boot Camp og pistlahöfundur hér á Viðskiptablaðinu, segir í samtali við Viðskiptablaðið að vissulega sé gott að fólk setji sér markmið hvað þetta varðar.

„Sérstök átaksnámskeið geta þó orðið til þess að koma fólki af stað. Það sér árangur og vill halda áfram að hreyfa sig. Það er góð tilfinning fyrir fólk að komast í kjól eða jakkaföt sem viðkomandi hefur ekki komist í lengi. En það er enn betri tilfinning að komast aftur í þau föt nokkrum mánuðum seinna eftir að hafa gert hreyfingu og hollt mataræði að lífsstíl en ekki kvöð.“

Árndís Hulda Óskarsdóttir, íþróttafræðingur og þjálfari í Heilsuborg, tekur undir þetta og leggur áherslu á að hreyfing þurfi að vera lífsstíll ætli fólk sér að ná árangri til lengri tíma.

„Sérstök átaksnámskeið geta vissulega verið fyrsta skrefið fyrir marga í átt að betri lífsstíl,“ segir Árndís Hulda.

„Hins vegar er rétt að hafa í huga að mikil hreyfing og átak eftir langt hlé myndar mikið álag á líkamann. Það getur að sama skapi orðið til þess að fólk gefst upp og telur ólíklegt að það nái settu marki. Þess vegna er mikilvægt að hugsa lengra og horfa til þess að ná langvarandi árangri.“

 

Fjallað er um átaksnámskeið á heilsusíðu í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins og nánar rætt við þau Arnald Birgi og Árndísi Huldu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.