*

Bílar 9. júlí 2012

Bílaáhugafólk getur rótað í dótakassa Rainers fursta

Sumarið er tíminn þegar flottu fornbílarnir eru boðnir upp. Undir lok mánaðar verða boðnir upp bílar í eigu Rainers fursta af Mónakó.

Áhugafólk um gamla bíla ætti að finna eitthvað í bílskúrinn á nokkrum bílauppboðum sem fyrirhuguð á meginlandi Evrópu í sumar. Undir lok mánaðar býður uppboðshúsið Artcurial í París upp 38 bíla sem safnað hafa ryki í skúr Rainers fursta af Mónakó og konu hans, leikkonunni Grace Kelly.

Rainer fursti lést í apríl árið 2005, 82 ára að aldri. Kona hans lést hins vegar árið 1982 eftir að hún fékk heilablóðfall undir stýri á Rover P6 3500 V8 á leið sinni frá Frakklandi til Mónakó með þeim afleiðingum að bíllinn fór út af veginum og niður fjallshlíð. 

Í umfjöllun netútgáfu bandaríska stórblaðsins Wall Street Journal fyrir helgi segir að Rainer fursta hafi verið ástríðufullur safnari í áratugi og bæði keypt og látið lagfæra fjölda bíla. Þegar hann lést rúmlega 100 bílar í safni hans. Bílarnir eru í flottari kantinum og ætti bolurinn - þ.e.a.s. venjulegt daglaunafólk - að hafa efni á einum slíkum.  

Á meðal bílanna sem boðnir verða upp í París eru rauðlitaður Panhard & Levassor X19 Roadster módel 1913. Lágmarksverðið sem sett er á hann liggur á bilinu 25.000 til 35.000 evrur, fjórar til 5,6 milljónir króna; blár Plymouth Cabriolet módel 1931 sem gæti farið á 8.000 til 12.000 evrur og gulur Siata Spring Roadster módel 1969. Lágmarkverðið sem sett er á bílinn er 8.000 til 14.000 evrur, allt upp undir 2,2 milljónir króna.

Þessir bílar eru smámunir miðað við glæsikerrurnar sem fóru á uppboðinu Goodwood Festival of Speed í Sussex í Bretlandi í síðasta mánuði. Á meðal bílanna þar voru einsæta Blower Bentley sem fór á fimm milljónir punda, jafnvirði 999 milljónir íslenskra króna. Annað eins verð hefur aldrei verið greitt fyrir breska fornbíl á uppboði í Bretlandi. Aðrir bílar, svo sem Rolls-Royce Silver Ghost módel 1912 fór á álíka verði. 

Hér og hér má skoða bíla úr safni Rainers fursta. Hér að neðan eru myndir af nokkrum bílum úr safninu. 

Bugatti Type 35 B árgerð 1927. Þetta var einn besti kappakstursbíll Bugatti á sínum tíma. 

Hér er hinn klassíski Ford A módel 1929 við hlið grænlitaða eðalvagnsins Packard Model 326 frá 1926. 

Furstinn safnaði ekki einvörðungu eðalvögnum. Hér eru nokkrir bílar sem almenningur hafði efni á. Þar á meðal eru Simca og Fiat Jolly auk bílsins Autobianchi, sem ítölsku bílaframleiðendurnir Fiat, Pirelli og Bianchi framleiddu saman. Framleiðslan var í gangi á árunum 1955 til 1995 þegar reksturinn fór á hliðina.