*

Bílar 15. maí 2010

KIA SOUL vekur athygli bílaáhugamanna vestanhafs

Þykir afar sérstakur bíll með þýsku "Red Dot" hönnunarverðlaunin í farteskinu

Hörður Kristjánsson
 - hkr@vb.is

Bandaríkjamenn eru í æ ríkara mæli að uppgötva að bílar sem eru litlir og sparneytnir geta líka verið furðu rúmgóðir. Ef dæma má af umfjöllum bandarískra bílablaðamanna, þá eru Bandaríkjamenn líka að uppgötva það sem Evrópumenn hafa lengi vitað að það er líka hægt að gera smábíla spennandi fyrir þá sem vilja fá eitthvað meira en einfalleika og sparneytni þó bílarnir séu smáir. KIA SOUL hefur einmitt vakið talsverða athygli bílablaðamanna vestanhafs, ekki síst fyrir fádæma snjalla hönnun og afar mikið innanrými miðað við utanmál. Í hugum margra mun bíllinn þó sjálfsagt ekki teljast sérlega fallegur, fremur mætti kalla hann fallega ljótan. Þessi bíll er ekki kominn á göturnar hérlendis en hann kom fyrst á erlendan markað á síðasta ári.

Hlaut „Red dot” hönnunarverðlaunin

KIA SOUL er sannarlega athyglisverður bíll. Með hönnun hans vann kóreskur bílaframleiðandi í fyrsta sinn á síðasta ári Rauða punktinn, eða „Red Dot” hönnunarverðlaunin frá því farið var að veita þau árið 1955. Kia Soul bar þar sigur úr býtum í sínum flokki en alls voru tilnefningar 3.230 talsins. „Red dot” hönnunarverðlaunin eru veitt af Design Zentrum Nordrhein Westfalen í Þýskalandi og er einhver þekktasta viðurkenning á sviði hönnunar í heiminum. Dómnefnd Red Dot hönnunarverðlaunanna var skipuð 29 sjálfstætt starfandi hönnuðum og háskólamönnum af öllum sviðum skapandi starfsemi. Verðlaunin voru afhent við formlega athöfn í Aalto-Theater í Essen í Þýskalandi 29. júní 2009.

Svipar til hönnunar Skoda

Það sem vekur athygli margra eru svartir gluggapóstarnir að framan sem virðast sóttir beint í smiðju Skoda á Roomster bílnum og Skoda Yeti jepplingnum sem nýkominn er á markað hérlendis, en báðir þessir bílar eru hannaðir á svipuðum forsendum og Kia Soul.

Fjölþjóðlegt hönnunarteymi

Kia Soul sigraði í flokknum „Bifreiðar, samgöngur og húsvagnar”. Bíllinn er hannaður af teymi hönnuða í Kóreu, Kaliforníu og Evrópu. Kjarninn í hönnuninni gengur út á sértækar lausnir á sviði framleiðslu og hin skýru tengsl við aðra bíla í Kia-fjölskyldunni. Verðlaunin eru afrakstur þeirrar vinnu sem farið hefur fram innan Kia þar sem lögð hefur verið áhersla á að gera sess hönnunar í framleiðslunni einn af lykilþáttunum í starfsemi fyrirtækisins.

Við hönnun bílsins var reynt að höfða til tilfinningalegrar skírskotun samfara notagildi ökutækisins. Soul er þannig tákn um þá áherslu sem orðið hefur innan Kia samsteypunnar í átt til ríkari hönnunar framleiðsluvara sem höfða til bílkaupenda.

Borinn saman við Pontiac Vibe og Toyota Matrix

Í Bandaríkjunum hafa menn gjarnan borið Kia Soul og þá Sport útgáfuna saman við Pontiac Vibe og Toyota Matrix eins og m.a. má sjá í umfjöllun Charles Plueddeman sem skrifað hefur greinar í fjölmörg þekkt sport og bílatímarit í 20 ár. Í verði hefur Kia þar yfirleitt vinninginn með sambærilegum búnaði, en standard útgáfan af Kia Soul er þó um 3-4.000 dollurum ódýrari. Hefur Kia Soul Sport verið að leggja sig á 17.195 dollar á móti 17.445 dollara hjá Pontiac Vibe og 17.510 dollara fyrir Toyota Matrix. Hvað vélastærð áhrærir hefur Pontiac vinninginn með  sína 2,4 lítra og 158 hestöfl. Næstur er Kia Soul Sport með 2 lítra og 142 hestafla vél en Toyota Matrix rekur þar lestina með 1,8 lítra og 132 hestafla vél. Í sparneytni bæði innan- og utanbæjar hefur Toyota vinninginn með örlítið minni eyðslu en Kia en Pontiac eyðir mest þessara þriggja bíla, enda vélin áberandi öflugust. Í lauslegum könnunum á netinu virðist Kia Soul Sport yfirleitt skora best í samanburði við áðurnefnda keppinauta þó ekki muni miklu.

Það eru ekki síst mjög auðveld umgengni um bílinn, gott rými fyrir farþega og ökumann og innréttingarnar í Kia Soul sem vekja hrifningu Bandaríkjamanna. Mælaborðið er það sem kallað er „laid back" mælaborð með þrem takka- og mælaeiningum. Miðjueiningin er fljótandi og er hægt að renna henni upp og til hliðar að ósk ökumanns. Í Bandaríkjunum er bíllinn auk þess í boði með margvíslegu litavali á mælaborði og innréttingum og hljómtækja að ósk kaupenda.