*

Bílar 5. júní 2013

Ráðherrabílarnir af öllum stærðum og gerðum

Bílafloti nýrrar ríkisstjórnar er kominn til ára sinna. Forsætisráðherra fær nýjasta bílinn en fjármálaráðherra einn þeirra elstu.

Jón Aðalsteinn Bergsvein
 - jon@vb.is

Átta af níu bílum nýrrar ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks eru 5 til 8 ára gamlir. Aðeins var skipt um bíl í forsætisráðuneytinu þegar Sigmundur Davíð Gunnlaugsson tók þar lyklavöldin. Sigmundi er ekið um á Mercedes Benz E 250 CDI af millistærð en hann var nýskráður 17. maí síðastliðinn.

Á meðal hinna ráðherrabílanna eru tveir Volvo-ar, Audi, BMW, Landrover, Toyota og Lexus. Bílarnir voru nýskráðir á árunum 2005 til 2008.

Fram kemur í svari innanríkisráðuneytisins við fyrirspurn vb.is að bílarnir voru keyptir af hverju ráðuneyti fyrir sig á sínum tíma og hafi þeir færst á milli ráðuneyta. Af þeim sökum reyndist ekki unnt að gefa upp kaupverð bílanna. Í svari ráðuneytisins segir m.a. að stefnan sé að endurnýja bílaflota ráðuneytanna reglulega en hægst hafi á því undanfarin ár vegna efnahagsástandsins. Reynt verði þó að endurnýja bílana á næstu misserum. 

Steingrímur J. Sigfússon, fyrrverandi formaður VG og atvinnumála- og nýsköpunarráðherra, kom á sinn síðasta fund sem ráðherra vinstristjórnarinnar á Volvo 142 árgerð 1971. Bílinn notaði hann við ýmis tækifæri. Bíllinn var í eigu móðurbróður eiginkonu Steingríms og keyptu þau hjónin bílinn af dánarbúi hans. Á bak við Volvoinn sést Audi A6, bíll mennta- og menningarmálaráðherra.


Katrín Jakobsdóttir stígur út úr Audi mennta- og menningamálaráðuneytis. 

 

Illugi Gunnarsson fékk Audi Katrínar Jakobsdóttir eftir að hann fékk lyklavöldin í mennta- og menningarráðuneytinu.

 

Bíll mennta- og menningarmálaráðuneytis var nýskráður 21. ágúst árið 2008 eða fyrir tæpum fimm árum.


Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra gengur á ríkisstjórnarfund á Bessastöðum úr Volvo ráðuneytis hans.


Heilbrigðisráðherrann Kristján Þór Júlíusson stígur út úr Volvo XC90. Þetta er sami bíll og Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra notaði.


Svipuðu máli gegnir um Volvo heilbrigðisráðherra og fleiri bíla nýrrar ríkisstjórnar; hann var nýskráður í mars árið 2008. Björn Hannesson, bílstjóri Kristjáns, segir þetta ágætis bíl og vel við haldið. 


Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, kemur til Bessastaða á BMW 5 á sinn fyrsta ríkisstjórnarfund. Þetta er sami bíll og forveri Bjarna, Katrín Júlíusdóttir, notaði.


Bíll fjármála- og efnahagsráðuneytis er með elstu ráðherrabílunum. Hann var nýskráður seint í júlí árið 2005.


Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra ekur um á Mercedes Benz E. 


Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra er hér komin á bílnum að húsi stjórnarráðsins. Bíllinn hefur lengi verið í eigu innanríkisráðuneytisins en hann var nýskráður í september árið 2007 og var á meðal svokallaðra aukabíla þar.


Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra ekur um á Volvo XC90. Þetta er bíll sömu gerðar og Kristján Þór Júlíusson er á. Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra notaði bílinn í tíð fyrri ríkisstjórnar.


Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, notar Landrover Freelander. Bíllinn var nýskráður í maí árið 2008.


Bíll Ragnheiðar Elínar Árnadóttur er Toyota Landcruiser. Svipuðu máli gegnir um bíl ráðuneytis hennar og Bjarna Benediktssonar; bíllinn er kominn til ára sinna en hann var nýskráður fyrir að verða átta árum eða í nóvember árið 2005.


Ráðherrabíll Ragnheiðar Elínar er hér fyrir utan stjórnarráðið.


Sigurður Ingi Jóhannsson, varaformaður Framsóknarflokksins og  sjávarútvegs – og landbúnaðarráðuneyti og umhverfisráðherra notar Lexus RX 400H.


Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra notaði bílinn sem Sigurður Ingi er á í dag. Bíllinn er kominn til ára sinna en hann var skráður í júlí árið 2005.


Jóhannes Þór Skúlason, aðstoðarmaður Sigmundur Davíðs Gunnlaugssonar ók honum um á Toyota-pallbíl áður en ný ríkisstjórn tók við. 


Þegar Sigmundur tók við fékk aðgang að nýjum bíl forsætisráðuneytisins sem keyptur var í stjórnartíð Jóhönnu Sigurðardóttur. Það er Mercedes Benz E 250 CDI, sem er af millistærð frá lúxusbílaframleiðandanum. Hann var nýskráður í síðasta mánuði.