*

Bílar 1. janúar 2022

Bílar úr kvikmyndum

Bílar fá oft athygli í kvikmyndum og oftar en ekki hefur það leitt til aukinna vinsælda bílanna.

Róbert Róbertsson

Allnokkrar bíltegundir hafa slegið svo rækilega í gegn í bíómyndum að þær hafa selst eins og heitar lummur í kjölfar myndanna eða jafnvel verið framleiddar í takmörkuðu upplagi. Sumir bílanna hafa selst á uppboðum fyrir háar fjárhæðir. Áramót tóku saman þrettán eftirminnilega bíla sem leikið hafa stórt hlutverk í kvikmyndum á liðnum árum og notið mikilla vinsælda í kjölfarið.

Modena GT Spyder California
Modena GT Spyder California árgerð 1961 var senuþjófur í myndinni Ferris Buller’s Day Off sem varð mjög vinsæl eftir að hún birtist á hvíta tjaldinu um miðjan níunda áratuginn. Þrír slíkir bílar voru sérstaklega smíðaðir fyrir myndina og tókst svo vel til að fólk hélt að þeir væru Ferrari bílar. Tveir bílanna voru notaðir sérstaklega í áhættuatriðin sem voru nokkuð mörg. Tveir Modena GT Spyder California bílanna úr myndinni hafa verið seldir á uppboði fyrir háar fjárhæðir á síðustu árum.

Alfa Romeo 1600 Duetto Spider
Kvikmyndin The Graduate skaut Dustin Hoffman upp á stjörnuhimininn. En bíllinn sem hann ók í myndinni Alfa Romeo 1600 Duetto Spider árgerð 1966 var einnig gerður ódauðlegur í myndinni. Lagið Mrs Robinson var það þriðja sem sló í gegn auk ítalska bílsins og Hoffman í flutningi Simon & Garfunkel. Alfa Romeo bíllinn var áberandi þar sem hann ók fram og til baka á hraðbrautum Kaliforníu í þessari sígildu mynd.

Ford Thunderbird
Ford Thunderbird árgerð 1966 var flottur í myndinni Thelma & Louise sem kom út 1991 og fékk sex Óskartilefningar. Myndin fjallar um tvær konur leiknar eftirminnilega af Geenu Davis og Susan Sarandon sem lenda á flótta undan lögreglunni. Ford Thunderbird fær margar flottar senur í eltingaleik við lögreglubíla og hefur betur lengst af. Alls voru 5 Thunderbird bílar notaðir í myndinni og lokasenan er eftirminnileg þar sem bíllinn flýgur fram af bjargi. Leikstjóri myndarinnar Ridley Scott er sagður hafa fallið fyrir Thunderbird.

Ford Gran Torino
Ford Gran Torino árgerð 1973 var áberandi í þeirri mögnuðu mynd The Big Lebowski. Upphaflega átti að nota Chrysler LeBaron í myndinni en til að leikararnir Jeff Bridges og John Goodman kæmust almennilega fyrir í bílnum var ákveðið á elleftu stundu að velja stærri bíl og Ford Gran Torino varð fyrir valinu.. Bíllinn fær frekar slæma meðferð hjá þeim félögum í þessari frábæru gamanmynd eftir Cohen bræður.

Fleiri fræga bíla af hvíta tjaldinu er að finna í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar, sem kom út í dag. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.