*

Bílar 2. nóvember 2012

Bílarnir í James Bond eru vonbrigði

Það eru ekki bara konur og kampavín sem heilla í Bond-myndunum.

Kvikmyndirnar um ævintýri njósnara hennar hátignar ganga ekki bara út á þurran Martini, konur og kampavín (hvað þá Heineken!). Margir velta ekki síður fyrir sér bílunum sem Bond ekur í myndunum.

Í nýjustu myndinni, Skyfall, má segja að fjórir bílar séu í aðalhlutverki. Það eru DB5 frá Aston Martin, Jaguar XJL, Land Rover Defender og Range Rover.

Allir þessir bílar eru frábærir. DB5 er sannkallað meistaraverk en hann hefur birst í sex Bond-myndum áður; síðast var árið 2006 í Casino Royale. Aðalbílinn í Skyfall kemur þess vegna ekkert á óvart og eru það vonbrigði. Því það er stíll James Bond að koma á óvart.

Jaguar XJL leikur næst stærsta hlutverkið í myndinni. Sá kom á götuna árið 2009. Bresku forsætisráðherrarnir, þeir Gordon Brown og David Cameron, hafa ekið á samskonar bíl, reyndar í styttri útgáfu, frá því hann kom á markað. Þetta er frábær bíll. En það er dapurlegt að annar af tveimur aðalbílunum í myndinni  sé ekki meira spennandi en embættisbifreið forsætisráðherrans breska.

Þá er það Range Rover-inn, sem er einhver flottasti lúxusjeppi sem völ er á. Nýr Range var fyrst sýndur í lok september í París en Skyfall var frumsýnd á hvíta tjaldinu einum og hálfum mánuði seinna. Framleiðendur myndarinnar hefðu átt að vita af því að nýr bíll væri á leiðinni. Af þeim sökum er einfaldlega ekki boðlegt að Bond aki um á bíl sem horfinn er úr sýningarsölum bílaframleiðandans. Ekki síst í ljósi þess að nýi Range-inn eru mun flottari en sá gamli sem notast er við í myndinni.

Öðru máli gegnir um Defenderinn sem leikur aukahlutverk. Valið á honum á rétt þó hann hafi oft áður sést í eldri Bond-myndum því dagar hans eru ef til vill brátt á enda. Hvað sem verður er Defender-inn klassískur, jafnvel þótt hann sé nýkominn af færibandinu. 

Að síðustu. Í einu atriði Skyfall ekur Bond um götur Shanghai á Mercedes Benz S Class. Jú jú, enn og aftur er Bond undir stýri á frábærum bíl. En þessi ágæti bíll kveður brátt því nýr S verður frumsýndur á næsta ári. Hvers vegna í ósköpunum er njósnarinn á bíl sem er sjö ára gömul hönnun. Hefði ekki verið rétt að hann væri á einhverju ferskara frá Stuttgart? Af nógu er að taka. Til dæmis SLS.

David Cameron heimsækir hér bilaframleiðandann Mclaren. Ron Dennis tekur á móti honum. Nær hefði verið fyrir framleiðendur James Bond að sækja bíl úr smiðju Mclaren, heldur en forsætisráðherrabíllinn frá Jaguar, sem sést í baksýn.