*

Bílar 17. nóvember 2019

Bílasala að taka við sér á ný

Árin 2016-2018 voru mjög stór í sölu nýrra bíla, og þar af var 2017 stærsta bílasöluár frá upphafi.

Róbert Róbertsson

María Jóna Magnúsdóttir framkvæmdastjóri Bílgreinasambandsins, segir að sé hinsvegar horft á þetta í stærra samhengi þá megi sjá að þrátt fyrir þennan samdrátt milli ára þá endar sala ársins líklega nálægt 11.500 fólkbílum, sem er meira en var á árunum 2008-2014 en aðeins undir því sem var 2015.

„Þá eru einnig um þessar mundir ýmis merki um að markaðurinn sé að ná betra jafnvægi og salan að taka við sér aftur en sala nýrra fólksbíla núna í október var 17,7% undir því sem var í október í fyrra sem er töluvert minni samdráttur en hingað til á árinu. Líklegt er að svipað verði uppi á teningnum í nóvember og desember. Við þetta má svo bæta að þegar horft er til umsvifa notaða markaðarins þá benda tölur þar til þess að samdrátturinn sé aðeins um 10% minni en á sama tíma í fyrra. Jákvæð þróun á sér einnig stað í Evrópu en þar mátti sjá 14,5% vöxt í sölu á EES svæðinu í september síðastliðnum miðað við sama mánuð í fyrra og er árið hingað til nú nokkurn veginn orðið á pari við sama tíma árið 2018,“ segir María.

Hún segir ennfremur að úrval af svokölluðum nýorkubílum sé sífellt að aukast og á næstu mánuðum og misserum megi búast við að sala nýrra bíla taki enn betur við sér, enda sé meðalaldur bílaflotans um 12,3 ár og hafi frekar verið að hækka undanfarið. „Mikilvægt er að bílaflotinn haldi áfram að endurnýja sig yfir í nýja bíla sem eru öruggari og menga minna, sama hvort það er yfir í nýorkubíla og blendinga eða yfir í nýja bensín og dísel bíla sem menga orðið margfalt minna en áður.“

Nánar er fjallað um málið í sérblaðinu Bílar, fylgiriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér