*

Bílar 7. febrúar 2020

Bílasala jókst um 1,2% í Evrópu

15,8 milljónir nýrra fólksbíla seldust innan EES svæðisins á síðasta ári. Fólksbílaflotinn telur 327 milljónir á svæðinu.

Bílasala í Evrópu jókst um 1,2% á síðasta ári miðað við árið 2018. Alls seldust í fyrra um 15,8 milljónir nýrra fólksbíla á evrópska efnahagssvæðinu og taldi heildar fólksbílaflotinn um 326,9 milljónir bíla samkvæmt upplýsingum frá ACEA (European Automobile Manufacturers Association). ACEA eru samtök bílaframleiðenda í Evrópu og halda þau utan um ýmiskonar tölfræði varðandi bílaflotann, sölu nýrra bíla eftir löndum og ýmislegt fleira.

Líkt og hér á landi þá byrjaði bílasalan í Evrópu hægt á síðasta ári en fór hinsvegar heldur batnandi á síðustu mánuðum ársins miðað við sömu mánuði árið á undan. Þannig varð 14,5% aukning í september, 9,7% í október, 4,9% í nóvember og svo 21,7% í desember - en þess má til gamans geta að söluaukning á Íslandi í desember var nákvæmlega sú sama samkvæmt upplýsingum frá Bílgreinasambandinu.

Litháen var með mestu söluaukninguna á á síðasta ári eða 43,2%. Þar á eftir var Rúmenía með 23,4% aukningu og síðan Ungverjaland með 15,6% aukningu. Í Danmörku var 3,3% söluaukning. Salan í Noregi dróst saman um 3,8%, Í finnlandi var samdrátturinn 5,2% en 0,7% söluaukning í Svíþjóð. Hvað fimm stærstu markaðssvæðin í Evrópu varðar þá varð 5,0% aukning í Þýskalandi, sem er stærsti einstaki bílamarkaðurinn í Evrópu. Einnig varð aukning í Frakklandi upp á 1,9% og 0,3% aukning á Ítalíu. Það varð hinsvegar 2,4% samdráttur í Bretlandi og 4,8% samdráttur á Spáni.

Fjallað er um málið í fylgiritinu Bílar. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Stikkorð: Evrópa  • Bílasala