*

Bílar 11. september 2015

Bílasala jókst um 70% í ágúst

Af 842 fólksbílum sem nýskráðir voru í ágústmánuði fóru aðeins 82 til bílaleigufyrirtækja.

Sala á nýjum fólksbílum í ágústmánuði jókst um 69,8% frá sama tíma í fyrra. Nýskráðir fólksbílar voru nú 842 í mánuðinum á móti 496 í sama mánuði á síðasta ári og nemur aukningin því 346 bílum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Bílgreinasambandinu.

Af bílunum 842 voru 82 afgreiddir til bílaleiga. „Áframhaldandi aukning er í nýskráningum fólksbíla og er aukningin nú aðallega til einstaklinga og fyrirtækja. Búið er að afgreiða megnið af bílaleigubílum sem afgreiddir verða á árinu,“ segir í tilkynningunni.

Alls hafa 10.794 fólksbílar verið nýskráðir á fyrstu átta mánuðum ársins en það er 41,7% aukning frá sama tímabili í fyrra.