*

Bílar 23. september 2015

Bílasalinn var blekktur af bílasala

Í viðtali við Bíla segir Skúli K. Skúlason framkvæmdastjóri hjá BL frá löngum ferli sínum í bílabransanum á Íslandi.

 Skúli K. Skúlason hefur verið lengi í bílabransanum og hefur komið að uppbyggingu hjá Toyota, Arctic Trucks og nú hjá BL þar sem hann er framkvæmdastjóri sölusviðs.

Skúli segir í viðtali við Bíla, fylgirit Viðskiptablaðsins sem kemur út á morgun, frá mörgu eftirminnilegu í störfum sínumog bílnum sem hann hafði lengi dreymt um.

Þegar hann loksins fann draumabílinn Chevrolet Camaro árgerð 1968 á netinu keypti hann bílinn af bandarískum bílasala og lét senda hann heim til Íslands. Spennan var í hámarki þegar Skúli fór að taka á móti bílnum ásamt syni sínum.

,,Þegar gámurinn var opnaður kom ýmislegt misjafnt í ljós. Það var olíupollur undir honum en sjálfskiptingin lak og hann var rafmagnslaus. Við fengum start og ég kom honum út úr gámnum, en þá sá ég að ég hafði verið plataður með flottum ljósmyndum og Photosjoppi. Fljótlega kom síðan í ljós að bíllinn var illa ryðgaður og í raun ónýtur, allavega samkvæmt skilgreingu minni," segir Skúli.

Hann neitaði þó að gefast upp og lét bílasalan vestanhafs ekki komast upp með svindlið. Skúli greip til ýmissa ráða eins og hann lýsir í viðtalinu. Við tók síðan 18 mánaða brjáluð vinna við að gera upp Camaro-inn og miklum fjármunum var eytt í að gera bílinn sem glæsilegastan og það hefur svo sannarlega tekist hjá Skúla og þeim sem lögðu hönd á plóginn.

Í viðtalinu segir Skúli frá viðureign sinni við bandaríska bílasalann, tíma sinn hjá Vífilfelli þegar hann sjálfsalavæddi Ísland, áhuga sinn á heimildamyndargerð og ferli sínum í bílabransanum á Íslandi. Bílar fylgir Viðskiptablaðinu í fyrramálið.