*

Bílar 7. nóvember 2016

Bílasýningin í París

Flestir stærstu bílaframleiðendur í heimi tóku þátt í bílasýningunni í París en þar var töluverður fjöldi rafbíla frumsýndur.

Bílasýningin í París var haldin í 83. sinn dagana 1.-16. október. Stærstu bílaframleiðendur í heimi tóku þátt í sýningunni. Svona næstum því. Ford Motors tók ekki þátt. Volvo ekki heldur og margir söknuðu einnig Lamborghini sem hefur jafnan vakið mikla athygli í París.

Fjölmiðlar um allan heim hafa gert mikið úr þætti rafbíla á sýningunni. Rétt er að töluverður fjöldi rafbíla var frumsýndur en flestir eru þeir framtíðarmúsík.

Til að mynda fer EQ-bíllinn frá Mercedes-Benz í framleiðslu eftir 4-5 ár. Rétt eins og Volkswagen ID. Nákvæmlega sömu sögu er að segja af Porsche Mission E sem var frumsýndur í Frankfurt í fyrra. Sá bíll var þá sagður um áramót fara í framleiðslu eftir 3-5 ár.

Staðreyndin er sú að engum bílaframleið- anda hefur enn tekist að hanna rafbíl sem getur keppt við hefðbundna bensín- eða dísilbíla hvað varðar verð og áreiðanleika.

Margir telja að Tesla hafi náð lengst í framleiðslu á rafbílum, en fyrirtækið hefur verið rekið með gríðarlegu tapi undanfarin ár. Stóru bílaframleiðendurnir hafa ekki enn farið af fullu afli inn á rafbílamarkaðinn. Líklega þar sem þeir vilja þróa tæknibúnað sinn meira og lækka framleiðslukostnað.

Það er því ótímabært fyrir íslenska bílaframleiðendur að bíða eftir langdrægum rafbílum ef endurnýja skal bílinn. Nær er að skoða það breiða úrval sem er af tvinnbílum, ekki síst þeim sem er hægt að hlaða.

Nánar má lesa um málið í bílablaði sem fylgdi Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.

Stikkorð: París  • Bílasýning  • rafbílar