*

Bílar 10. nóvember 2017

Bíll ársins er Peugeot 3008

Bandalag íslenskra bílablaðamanna valdi Peugeot 3008 bíl ársins 2018 en tilkynnt var um valið í síðustu viku.

Það var Jón Vikar Jónsson, sölustjóri Peugeot sem tók á móti Stálstýrinu sem fylgir nafnbótinni Bíll ársins. Verðlaunin hafa verið veitt frá árinu 2004 af Bandalagi íslenskra bílablaðamanna og síðustu árin með stuðningi Frumherja og Bílgreinasambandsins.

Fjölmargir bílar voru tilnefndir sem bílar ársins síðastliðið vor enda innflutningur nýrra bíla og nýrra gerða aldrei verið meiri á landinu. Alls voru þetta 30 bílar en gjaldgengar eru nýjar bílgerðir og nýjar kynslóðir þekktari gerða.

Tólf af þessum 30 bílum komust í úrslit og var skipt niður í fjóra flokka eftir stærðum og gerðum. Í flokki minni fólksbíla bar Suzuki Swift sigur úr býtum, Nissan Micra hafnaði í öðru sæti og Kia Rio í því þriðja. Í flokki millistærðarbíla sigraði Hyundai Ionic, Honda Civic varð annar og Hyundai i30 þriðji, í flokki stærri fólksbíla sigraði Peugeot 3008, Volvo V90 Cross Country varð annar og BMW 5 þriðji.

Í flokki jeppa og jepplinga bar sigur úr býtum Volvo XC60, annar varð Skoda Kodiaq og þriðji Renault Koleos.

Allra hæstu einkunn allra þessara bíla hlaut Peugeot 3008. Næstflestu stigin fékk svo Hyundai Ionic og þau þriðju flestu Volvo XC60. Verðlaun fyrir bíl ársins, sem og fyrir fyrstu þrjú sætin í hverjum flokki voru veitt með viðhöfn í sal Blaðamannafélagsins í Síðumúla að viðstöddu fjölmenni.

Stikkorð: peugeot 3008  • bíll ársins