*

Bílar 5. nóvember 2012

Bíll Bítils fór á 70 milljónir

Paul McCartney gerði kröfu um að í Aston Martin DB5 væri plötuspilari.

Aston Martin DB5 módel 1964 sem eitt sinn var í eigu Bítilsins Paul McCartney fór á 344 þúsund pund, jafnvirði 70 milljóna króna, hjá uppboðshúsinu RM Auctions í Bretlandi í síðustu viku. Þetta hlýtur að teljast ásættanleg upphæð enda mati uppboðshúsið bílinn á milli 300 til 380 þúsund pund.

Paul McCartney pantaði sér bílinn rétt eftir að Bítlarnir luku tökum á kvikmyndinni A Hard Day's Night og skömmu áður en þeir túruðu um heiminn árið 1964. Bítillinn var með ýmsar sérkröfur í pöntun sinni, sem sumar hverjar teljast tímanna tákn. Bíllinn er blár að lit, með leðuráklæði á sætum og útvarpi. Bíllinn er greinilega barn síns tíma enda rúsínan í pylsuendanum innbyggður plötuspilari fyrir 45 snúninga plötur.

McCartney átti bílinn í sex ár og skipti hann nokkrum sinnum um eigendur eftir að Bítillinn losaði sig við hann.  

Á vef uppboðshússins segir að nú sé einmitt rétti tíminn fyrir þá sem eiga Aston Martin að selja þá. Markaðurinn með þessa hraðskreiðu sportbíla sé heitur nú um stundir enda spili þeir stórt hlutverk í Skyfall, nýjustu kvikmyndinni um ævintýri James Bond. Viðskiptablaðið fjallaði ítarlega um bílana í myndinni fyrir helgi.

Hér að neðan má sjá myndir af bílnum. Þær eru fengnar af vef uppboðshússins.

 

 

 

 

Bítillinn spilar á gítar í bílstjórasæti Aston Martin-bílsins.