*

Tölvur & tækni 28. september 2012

Bill Gates segir Windows 8 spennandi

Stofnandi Microsoft er byrjaður að nota nýjasta stýrikerfið frá fyrirtækinu. Önnur eins breyting hefur ekki sést þar í 17 ár.

Bill Gates, stofnandi og stjórnarformaður bandaríska hugbúnaðarrisans Microsoft, segist vera spenntur að sjá hvernig nýja stýrikerfinu Windows 8 muni reiða af. Stýrikerfið er algjör umbylting á núverandi kerfi og einhver mesta breytingin sem Microsoft hefur gert á stýrikerfi sínu síðan Windows 95 kom á markað í ágúst árið 1995 eða fyrir 17 árum.

AP-fréttastofan hefur eftir Gates að hann noti nýja stýrikerfið nú þegar og sé - eins og reyndar má gefa sér - sáttur við það.

Ýmsar útgáfur eru þegar til af nýja stýrikerfinu, s.s. þau sem keyra Lumia-farsímana frá Nokia auk þess sem prufuútgáfa hefur við til um nokkurt skeið af Windows 8. Nýja stýrikerfið kemur á markað í næsta mánuði. Það er mjög frábrugðið þeim stýrikerfum sem notendur tölva sem keyra á Windows-stýrikerfum eiga að venjast. Í stað hefðbundins start-hnapps á botni tölvuskjás munu tölvunotendur sjá kassa. Þetta er svipað umhverfi í Lumia-farsímunum frá Nokia. 

Hér að neðan má sjá myndbrot af því hvernig nýja stýrikerfið virkar.

Stikkorð: Microsoft  • Windows 8  • Bill Gates