*

Tölvur & tækni 14. apríl 2015

Bill Gates spáir örari tæknibreytingum næstu 10 ár

Íslenskur ígulkerasali mun geta talað við kínverskan kaupanda sem talar enga ensku.

Microsoft fagnar 40 ára afmæli fyrirtækisins nú í apríl, en það var stofnað árið 1975. Margt hefur breyst á þessum árum en í tölvupósti sem Bill Gates, stofnandi fyrirtækisins, sendi starfsmönnum í síðustu viku fór hann yfir þær stórtæku hugmyndir sem uppi voru á fyrstu árum þess. Hann og Paul Allen, sem stofnaði fyrirtækið með Gates, settu sér það markmið að koma tölvu á hvert einasta skrifborð og heimili. Í póstinum segir að það hafi verið djörf hugmynd og margir töldu það hafa verið frekar galið að ímynda sér að þetta væri mögulegt. Það sé ótrúlegt að velta því fyrir sér hversu margt hefur breyst í tölvumálum síðan þá og að starfsmennirnir gætu allir verið afar stoltir af því hlutverki sem Microsoft hefur spilað í þeirri byltingu.

Hröð þróun og margt spennandi framundan

Gates lagði þó áherslu á það að hann velti framtíð Microsoft fyrir sér fremur en fortíðinni. Hann segist telja að tölvur muni þróast hraðar á næstu 10 árum heldur en þær hafa gert á síðustu 40 árum. Við lifum nú þegar í heimi þar sem mörg stýrikerfi og tegundir af búnaði standa til boða og munu ná enn meiri almennri útbreiðslu.

Þá kom hann einnig inn á þá miklu krafta sem settir hafa verið í rannsóknir og þróun undir stjórn Satya Nadella, núverandi forstjóra fyrirtækisins. Nú eru mörg spennandi verkefni í farvatninu og þar má helst nefna þýðingarforritið Skype Translator sem nú er í prófunum og mun gefa fólki kleift að þýða milli t.d. ensku og kínversku í rauntíma. Þannig getur íslenskur kaupandi átt samtal við birgja í Kína sem talar enga ensku. Þá má einnig nefna raddstýringuna Cortana sem nú þegar er aðgengileg á Windows símum og HoloLens, tækni sem skapar ótrúlegar heilmyndir með því að blanda stafrænum veruleika og raunveruleikanum saman. 

Framkvæmdastjóri Microsoft á Íslandi telur tækni á tímamótum

Fram kemur í tilkynningu að Heimir Fannar Gunnlaugsson, framkvæmdastjóri Microsoft á Íslandi, taki undir orð Gates og segist telja upplýsingatæknina vera á ákveðnum tímamótum og Microsoft sé aftur að taka forystuna nú á 40 ára afmælinu. Kaup fyrirtækisins á farsímaarmi Nokia og sænska fyrirtækinu Majong sem framleiðir Minecraft leikinn hafa vakið mikla athygli. Nýjustu fréttirnar séu síðan að sjálfsögðu Windows 10, en beta útgáfa af stýrikerfinu er nú þegar komin í prófun. Þá hefur fyrirtækið gefið út Office á iPad og Android og bjóði því upp á forritin innan helstu stýrikerfa.

Fyrirtækjum sem nýta sér upplýsingatækni gengur betur

Heimir telur miklar breytingar framundan í tengslum við skýjalausnir. Hann segir það sem sé að breytast mjög hratt sé að fyrirtæki af öllum stærðum og gerðum eru að fara að nýta sér skýjalausnir, sem þýðir að þau geta mun auðveldar brugðist við og breytt sér eftir þörfum. Hann segir þetta vera mikilvægt fyrir fyrirtæki, en í nýlegri rannsókn Boston Consulting Group kom í ljós að meirihluti þeirra fyrirtækja sem nýta sér upplýsingatækni gengur yfirhöfuð betur.

Ennfremur segir Heimir að það sé mikilvægt fyrir Microsoft að hjálpa samstarfsaðilum sínum að dafna og vaxa. Áætlað er að rúmlega 2.000 manns hafi beina atvinnu hér á landi af Microsoft hugbúnaðarlausnum sem er ansi stórt í okkar samhengi.