*

Bílar 7. júlí 2016

Bíll með karakter

Forlátur Renault Estafette húsbíl vekur athygli og hefur fengið hlutverk í brúðkaupi og nú síðast í frönskum sjónvarpsþætti.

Guðbjörg Gissurardóttir, ritstjóri og eigandi tímaritsins Í boði náttúrunnar, á forlátan Renault Estafette húsbíl sem vekur athygli hvert sem hann fer. Guðbjörg hefur nýtt bílinn til að ferðast með fjölskyldu sína, eiginmann og tvo syni, og auk þess í vinnutengdum ferðum. Bíllinn sem fengið hefur nafnið Runólfur rauði hefur auk þess fengið hlutverk í brúðkaupi og nú síðast í frönskum sjónvarpsþætti.

Smíðaður að innan á vandaðan hátt

Renaultinn er árgerð 1977 og er líklega keyrður 188 þúsund km. Bíllinn núllstillir sig eftir 100 þúsund kílómetra og á mælinum stendur 88 þúsund km. Guðbjörg sem er þriðji eigandi bílsins segir að eigandinn sem hafi flutt bílinn inn og breytt honum í húsbíl hafi farið þrisvar á honum í ferðalögum til Evrópu með Smyrli.

,,Fyrri eigandi er iðnaðarmaður frá Akureyri og notaði bílinn sem vinnubíl í nokkur ár áður en hann breytti honum í húsbíl. Ef ég man þetta rétt þá fékk hann skipasmið og arkitekt í lið með sér að smíða innréttingarnar og það er ótrúlegt hvað þetta er vel gert hjá þeim.

Eins og einn úr fjölskyldunni

Við erum búin að ferðast allmikið á bílnum um allt land m.a. á fótboltamót með strákana. Það kemur sér vel að vera með húsbíl og sérstaklega á þessum tímum þegar mjög erfitt er að fá svefnpláss vegna mikillar fjölgunar ferðamanna á Íslandi.

Það fer vel um okkur í bílnum og hann er eins og einn úr fjölskyldunni. Bíllinn fær sinn skerf af athygli og það er gaman hversu margir brosa og gleðjast þegar þeir sjá bílinn enda er hann mikill karakter.

Frekari umfjöllun má lesa í sérblaðinu Bílar sem fylgir Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð.