
Þýski bílaframleiðandinn BMW hefur kynnt til sögunnar fyrsta bíl í heimssögunni sem hægt er að breyta um lit á í gegnum smáforrit (e. app). Svipt var hulunni af bílnum á CES sýningunni (Consumer Electronics Show) sem fram fór í Las Vegas og lauk sl. helgi. Reuters greinir frá.
Bíllinn, sem enn er á hugmyndastigi, hefur verið gefið nafnið BMW iX Flow. Notast er við svokallaða „E Ink“ tækni, sem meðal annars má finna í lesbrettum á borð við Kindle, til að framkalla hin ýmsu grá- og hvítlitu mynstur á ytra byrði bílsins.
Eins og fyrr segir munu notendur bílsins geta stýrt litasamsetningu og mynstri á bílskrokknum í gegnum smáforrit. Í framtíðinni er stefnt á að einnig verði hægt að gera slíkar breytingar í mælaborðstölvu bílsins og jafnvel með handabendingum.
Til að byrja með býður tæknin einungis upp á tvo liti, hvítan og gráan, en BMW hyggst halda áfram að þróa tæknina þannig að hún geti spannað breiðara litróf.
Hægt er að sjá kynningarmyndband sem BMW hefur sett í loftið um bílinn hér.