
Elon Musk, stofnandi og framkvæmdastjóri Tesla Motors, kynnti nýja tegund aðgerðar fyrir Tesla-bifreiðar með nýjasta Autopilot hugbúnaðar - og tækjabúnaðinum.
Nú mun Tesla-bifreiðin geta lagt sér algjörlega sjálfkrafa, hvort sem bílstjóri situr í bílnum eður ei. Þannig er hægt að stíga út úr bifreiðinni og láta tölvubúnaðinn um krappa lagningu þegar lítið er plássið.
Tæknina kallaði Elon ‘Summon’, og segir hana fyrsta hænuskrefið í átt að lokatakmarkinu sem hann segist ætla að ná innan tveggja ára - sem er að bifreiðin geti ferðast sjálf um landið. Þá gæti eigandinn hóað í Tesla-bílinn sinn og hann keyrt alla leið frá New York til Los Angeles bílstjóralaus.
Auk þess hefur Tesla-bifreiðum með Autopilot-sjálfstýringu verið breytt á þann máta að ekki er hægt að keyra hraðar en 8 km/klst yfir hámarkshraða á tvíðbreiðum götum.
Þetta gerir Tesla Motors til þess að auka öryggi og áreiðanleika sjálfstýringarinnar. Auk þessa mun Autopilot hægja örlítið á sér áður en bifreiðin beygir krappt á hraðbrautum, líkt og mannlegur bílstjóri myndi gera.