*

Ferðalög & útivist 29. apríl 2013

Bindindishótel opnar í Egyptalandi

Hótel sem selur ekki áfengi hefur opnað í Egyptalandi. Aðilar innan ferðamannageirans uggandi vegna áhrifa stjórnvalda.

Eitt fyrsta áfengislausa hótelið hefur nú opnað í Egyptalandi í strandbænum Hurghada við strendur Rauða hafsins.

Tilgangur með opnun hótelsins er að laða að fleiri múslimska ferðamenn á svæði sem nú þegar er vinsælt hjá erlendum ferðamönnum.

Hótelið, sem heitir Le Roi Hotel, opnar á sama tíma og margir í ferðamannaiðnaðinum lýsa yfir áhyggjum af auknum áhrifum stjórnvalda á ferðamannaiðnaðinn. Þeir segja að slík hótel kunni að fæla ferðamenn frá en ferðamönnum hefur fækkað gríðarlega á svæðinu síðan uppreisnin gegn Hosni Mubarak hófst árið 2011. 

Yasser Kamal, eigandi hótelsins blæs á vangaveltur um að opnunin sé pólitísk og segir hótelið einfaldlega sinna þörfum þeirra sem vilja ekki vera innan um áfengisneyslu. Á hótelinu eru 134 herbergi og 35 svítur. Á þakinu er sundlaug sem er aðeins fyrir konur.

Í kringum 14,5 milljónir ferðamanna heimsóttu Egyptaland árið 2010. Sú tala fór niður í 9,8 milljónir ári síðar í kjölfar óróans í landinu. Stuff.co.nz segir frá málinu á vefsíðu sinni. 

Stikkorð: Egyptaland  • Áfengi