*

Tíska og hönnun 31. desember 2018

Bindisskyldan snýr aftur

Eftir að hálsbindi tóku að víkja í viðskiptalífinu uppúr aldamótum telja sumir að nú séu þau að snúa aftur.

Andrés Magnússon

Sú var tíð að í viðskipta- og atvinnulífi mátti heita bindisskylda, vildu menn láta taka sig alvarlega í heimi fjármála og athafna, þá dugði ekkert annað en að ganga með bindi. Þetta breyttist nokkuð upp úr aldamótum. Með netbólunni minnkaði formfestan og sumir tölvurisarnir bönnuðu jafnvel hálsbindi.

Þegar lánsfjárbólan tók að belgjast út nokkru síðar blómstraði ný kynslóð, sem gjarnan vildi láta það sjást að hún væri annarrar gerðar en jakkalakkar fortíðar og hið fyrsta sem hún kastaði var hálstauið. Á Íslandi mátti það heita að fráflakandi skyrta væri einkenni útrásarvíkinganna, þó að öðru leyti væru fötin mikið hin sömu, ensk eða ítölsk jakkaföt.

Auðvitað er gott þegar ferskir vindar blása í tískunni, en sá var gallinn að dökk jakkaföt eru frekar sviplítil ein og sér. Bindi þjóna beinlínis því markmiði að vera fremur lágstemmt skraut við þau, um það bil hið eina, sem ljá þeim persónuleika, enda fer karlmönnum sjaldnast vel að nota meira skart en ermahnappa og armbandsúr. Sumir gripu því til þeirra ráða að nota fremur áberandi vasaklúta frekar en ekkert við þau, en er fram í sótti og bláu fötin tóku að ryðja sér rúms (þó mörgum þyki þau fullléttvæg á skrifstofuna) mátti brydda þau með ljósu leðurbelti og skóm í stíl. Aðrir tóku hins vegar þann kost að fara fremur í hrýfð föt, gjarnan með vægu kaflamynstri, svo menn væru ekki jafnfullkomlega tvívíðir.

Á árinu sem er að líða tók hins vegar að bera aftur á hálsbindum í viðskiptalífinu og tískuspekúlantar telja að þau munu sækja enn frekar í sig veðrið á nýja árinu og hafa upp margvíslegar lærðar kenningar um það, allt frá langtímatískusveiflum til efnahagssveiflna á heimsvísu.

Góðu fréttirnar eru þær að dræm sala undanfarin ár hefur hvatt helstu bindisframleiðendur til þess að vanda sig enn betur, svo sjaldan hefur verið jafngott úrval af vönduðum hálsbindum, verðið vel þolandi og ýmis kærkomin nýbreytni, bæði í litum, vefnaði og frágangi. Bláu fötin höfðu svo þau góðu áhrif, að prjónabindi hafa komið inn sterk að nýju og sömuleiðis bindi með ofnu mynstri.

Þar er hinn rauði þráður sá að menn þurfa að velja sér bindi, sem hæfa fötunum, ekki aðeins þannig að litirnir fari saman, heldur einnig efnið. Það er yfirleitt fullmikið af því góða að vera í köflóttu bindi við köflótt föt, en ef fötin eru úr sléttu og felldu efni þarf bindið að skera sig úr, annaðhvort í áferð eða lit, jafnvel hvorutveggja. Þar skiptir auðvitað líka máli hvernig skyrtu menn hafa valið sér, en fyrst og fremst þarf að horfa til fatanna.

Sem fyrr segir er hálsbindið eins konar persónuleg áhersla á annars ópersónulegan klæðnað, svo það getur verið vandi að velja sér rétt bindi og síðan veltur það jafnvel ekki síður á dagsforminu en fötunum, hvaða bindi er best valið hverju sinni. Fyrir vikið eiga flestir bindismenn dágóðan slatta af bindum, nokkrir tugir eru ekki óalgengir, enda endast þau betur en flestar aðrar flíkur í klæðaskápnum.

Við veljum okkur litina mikið til eftir fötunum, en þeir geta líka haft sjálfstæða þýðingu. Gul eða gyllt bindi má kalla kraftbindi (e. power ties) og fagurrauð eru í svipuðum flokki, eins og menn þekkja af einkennisnúningi bandarískra stjórnmálamanna. Vínrauð eða purpuralit þykja hafa meiri hefðarsvip, meðan blá þykja traustvekjandi og verkleg.

Svo skiptir auðvitað máli hvaða bindi eru notuð hvar. Menn nota ekki sömu bindi í brúðkaupum og jarðarförum, endurskoðendur komast ekki upp með sama frumleika og auglýsingastofustjórar. Eins má nota bindin til merkjasendinga; í vinnunni er hnúturinn vel hertur, en losaður eftir vinnu og bindið tekið af þegar heim er komið. Um helgar nota menn sjaldnast bindi nema við hátíðleg tækifæri, fara bindislausir á hjónastefnumót en með bindi í brúðkaupsafmælið, án bindis í matarboð í heimahúsi en með bindi á árshátíð.

Merkjasendingarnar mega þó ekki vera of sterkar. Bindi með tískumerki í mynstrinu eru of örvæntingarfull, að ekki sé minnst á æpandi liti og mynstur eða sterkari myndmótíf eins og teiknimyndafígúrur eða ámóta grín, því slík léttúð gengur þvert á punktinn við það að ganga með bindi. (Nema auðvitað að menn slái saman í slæmrabindaveislu og verðlauni mesta hryllinginn!) Bindi sýna alvörugefni og vandvirkni, snyrtimennsku og tillitssemi.

Hálsbindin sem fást í betri herrafataverslunum á Íslandi eru flest fyrirtak, en svo nota margir tækifærið erlendis til þess að breikka úrvalið. Það þarf ekki að vera merkjavara, þó tískuhús eins og Hermès, Duchamp og Charvet, Paul Smith, Burberry eða Turnbull & Asser standi ávallt fyrir sínu. Það er til mikið af frábærum smærri bindaframleiðendum, sérstaklega á Ítalíu, sem gera einstök bindi og selja orðið margir á netinu. Eins hefur undanfarin ár borið á ýmsum nýjum sprotum, ekki síst í London, sem vert er að gefa gaum, t.d. Marwood, Drake, Dancys og Cravat Club.

Það er um að gera að vanda valið og það er ástæðulaust að velja alltaf skrautlegasta eða dýrasta bindið. Umfram allt á það að hæfa þeim sem ber það og fullkomna þann mann, sem fötin hafa að geyma.

Nánar er fjallað um málið í Áramótum, sérriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

Stikkorð: hálsbindi