*

Matur og vín 13. október 2017

Bingókúlu Rice Krispies kaka

Rice Krispies kökurnar hafa lengi verið vinsælar og koma í ýmsum útgáfum.

Lesendur matarbloggsins Gulur, rauður, grænn og salt bíða yfirleitt spenntir eftir nýjum færslum enda ekkert nema girnilegir réttir og gómsætar kökur sem Berglind Guðmundsdóttir eigandi bloggsins bíður uppá. Þeir urðu því ekki fyrir vonbrigðum þegar hún deildi þessari dásemdar uppskrift á dögunum en kökuna segir hún sína uppáhalds þegar það kemur að Rice Krispies kökum. Dæmi svo hver fyrir sig.

Bingókúlu Rice Krispies kaka
Botn
100 g smjör
100 g suðusúkkulaði
3 msk síróp
150 g bingókúlur
200 g Rice Krispies

Lakkríssósa
150 g bingókúlur
2-3 msk rjómi

Toppurinn
250 ml rjómi
250 g jarðaber

  1. Gerið botninn og setjið smjör, suðusúkkulaði, síróp og bingókúlur saman í pott og bræðið saman við vægan hita. Takið af hitanum og hrærið Rice Krispies saman við.
  2. Setjið smjörpappír í form og hellið Rice Krispies blöndunni í formið. Kælið í ísskáp í um klukkustund.
  3. Gerið lakkríssósu með því að bræða bingókúlur og rjómann saman í potti við vægan hita. Hellið henni síðan yfir botninn*
  4. Þeytið rjómann og setjið yfir botninn. Skerið jarðaber eða aðra ávexti niður og setjið yfir rjómann. Berið fram og nnnnnjóótið!

 

*Stundum læt ég lakkrisósuna yfir botninn og stundum yfir rjómann eins og sést á myndinni. Svo má líka gera bæði enda lítur kakan dásamlega út toppuð með smá lakkríssósu.

http://grgs.is/2017/10/11/bingokulu-rice-krispies-kaka/