*

Tölvur & tækni 19. mars 2013

Birgjar hunsa HTC og afgreiða frekar Samsung og Apple

Tævanski farsímaframleiðandinn hefur átt í erfiðleikum með að fá nauðsynlega íhluti í nýjasta símann.

Dregist hefur að gefa út nýjustu útgáfuna af flaggskipssíma tævanska farsímaframleiðandans HTC og samkvæmt einum framkvæmdastjóra fyrirtækisins er það vegna þess að birgjar HTC leggja frekar áherslu á að sinna Samsung og Apple. Wall Street Journal hefur eftir framkvæmdastjóranum að HTC sé ekki lengur í efstu þrepum virðingarstigans sem kaupandi og því situr fyrirtækið á hakanum þegar kemur að afhendingu birgða. Eru það einkum tafir á myndavélabúnaði sem valda því að útgáfa símans, sem er í HTC One línunni, hefur dregist.

Í umfjöllun Gizmodo um fréttina segir að þessi veruleiki sé merkilegur fyrir þær sakir að þótt HTC sé ekki með jafnstóra markaðshlutdeild og Samsung og Apple á snjallsímamarkaði þá er fyrirtækið þó í þriðja sæti. Ef það er ekki nóg til að teljast vera meðal „stóru krakkanna“ í snjallsímaframleiðslu þá er keppnin í raun aðeins á milli Samsung og Apple. Ef staðan er sú að minni framleiðendur eiga erfitt með að fá íhluti í sína síma þá geti það haft óheppileg áhrif á markaðinn.

Stikkorð: Apple  • Samsung  • HTC