*

Sport & peningar 25. janúar 2017

Birkir Bjarnason í Aston Villa

Íslenskur landsliðsmaður gengur í raðir eins frægasta knattspyrnufélags Bretlands.

Íslenski landsliðsmaðurinn í knattspyrnu, Birkir Bjarnason, er genginn í raðir enska knattspyrnufélagsins Aston Villa. Þetta staðfesti félagið í dag, en þangað kemur Birkir frá Basel.

Birkir sló í gegn með íslenska landsliðinu á EM 2016 í Frakklandi þar sem hann skoraði tvö mörk, gegn Portúgal og Frakklandi. Birkir hefur verið einn af lykilmönnum Basel undanfarin tímabil en hann á einnig að baki farsælan feril á Ítalíu.

Samkvæmt BBC borgar Aston Villa 1,75 milljónir punda, eða ríflega 250 milljónir króna, fyrir Birki. Liðið leikur í næst-efstu deild Englands, Championship deildinni, eftir að hafa fallið úr úrvalsdeildinni á síðasta tímabili. Steve Bruce er knattspyrnustjóri liðsins.

Birkir Bjarnason verður fimmti íslenski landsliðsmaðurinn í ensku Championship-deildinni en þar eru fyrir Aron Einar Gunnarsson hjá Cardiff, Jón Daði Böðvarsson hjá Wolves, Ragnar Sigurðsson hjá Fulham og Hörður Björgvin Magnússon hjá Bristol City.

Stikkorð: fótbolti  • Birkir Bjarnason  • landslið  • íþróttir