*

Sport & peningar 25. október 2013

Bjartar horfur hjá mínum mönnum

„Ég ber því þá von í brjósti mér að mitt uppáhaldslið eigi góðan vetur í vændum.“

Jón Hákon Halldórsson

NBA-deildin hefst næsta þriðjudag með leik Indiana Pacers og Orlando Magic. Sama dag etja kappi meistarar Miami Heat og gamla stórveldið Chicago Bulls. Það sem mun vekja eftirtekt í d1eildinni í vetur er að í febrúar lætur David Stern af störfum og Adam Silver, aðstoðarframkvæmdastjóri deildarinnar, tekur við stöðu hans.

Stern tók við starfi sínu í apríl 1984 og hefur því verið framkvæmdastjóri í hartnær 30 ár. Auðvitað eru það samt liðin; leikmenn og þjálfarar sem skipta mestu máli. Sem fyrr eru miklar væntingar til Miami Heat, enda eru þeir með besta körfuboltamann deildarinnar, LeBron James, í sínum röðum. Hann hefur líka ágætis lið í kringum sig til þess að deila ábyrgðinni með. Ef þeir standa uppi sem sigurvegarar verður það þriðja árið í röð sem það gerist en að auki unnu þeir meistaratitil árið 2006.

Eftir því sem árunum fjölgar fækkar þeim NBA leikjum sem ég hef færi á að horfa á í beinni útsendingu. Það er erfitt að halda sér vakandi langt fram á nætur til að fylgjast með þeim. Ég verð því að viðurkenna að ég er haldinn dálítilli fortíðarþrá þegar kemur að NBA-deildinni. Ég get setið tímunum saman og horft á glefsur úr gömlum leikjum á YouTube og umfjöllun um NBA-veröld sem var. Houston Rockets er mitt lið í boltanum og Hakeem Olajuwon var minn maður. Hann og Michael Jordan voru valdir sama ár í NBA-deildina, en margir telja þann síðarnefnda vera besta körfuboltamann sögunnar. Ég hafði ómælda ánægju af því þegar ég á vafri mínu um veraldarvefinn núna í vikunni horfði á viðtal við John Salley, gamlan liðsfélaga Jordans. Hann lýsti því að þetta algenga sjónarmið væri misskilningur. Spurður um það hverjir væru bestu leikmenn sögunnar nefndi hann Magic Johnson, Larry Bird og Kareem Abdul-Jabbar. Hann nefndi svo að erfiðast hefði verið fyrir sig að spila vörn gegn Olajuwon. 

Í vor verða liðin tuttugu ár frá því að Houston vann sinn fyrsta meistaratitil, sem félagið fylgdi svo eftir með öðrum sigri árið eftir. Allt frá þeim tíma hefur liðið átt erfitt uppdráttar. Nú er framtíðin björt. Gamla kempan úr Boston, Kevin McHale er enn að þjálfa liðið og í vor var miðherjinn Dwight Howard keyptur til liðsins. Ég ber því þá von í brjósti mér að mitt uppáhaldslið eigi góðan vetur í vændum.

Stikkorð: NBA