*

Sport & peningar 15. október 2010

Bjóða öllum landsmönnum á Boot Camp æfingu

Í tilefni af útgáfu nýju Boot Camp bókarinnar ætlar Boot Camp að bjóða öllum landsmönnum á sérstaka útgáfuæfingu sem verður haldin kl 12 á Klambratúni (áður Miklatún) á morgun, laugardaginn 16. október.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Boot Camp en æfingin verður klukkutímalöng skemmtileg kynning á Boot Camp og verður hún getuskipt „svo allir ættu nú að fá eitthvað fyrir sinn snúð,“ eins og það er orðað í tilkynningunni.

Fram kemur að ávextir og drykkir verða í boði að æfingu lokinni og bókin verður seld á staðnum á sérstöku kynningarverði.

„Dragðu maka þinn, félaga, foreldra eða hvern sem er og leyfðu þeim að upplifa eina góða Boot Camp æfingu sem gleymist seint,“ segir í tilkynningunni.

Bókin inniheldur fjögur mismunandi æfingaprógröm ásamt nákvæmum æfingalýsingum í máli og myndum. Í heildina eru þetta 22 vikur af æfingum og er þeim skipt í fjögur stig: Grænjaxlaæfingar, almennar Boot Camp æfingar, elítuæfingar og þjálfun fyrir íþróttamenn.

„Bókin kemur einnig inn á allt frá hugarfari og harðsperrum til mælinga og mataræðis,“ segir í tilkynningunni.

„Þetta er því góður heildarpakki fyrir þá sem hafa áhuga á að æfa eftir Boot Camp kerfinu en hafa ekki tök á að mæta á námskeið.“