*

Sport & peningar 6. desember 2016

Bjóða Tevez ofurlaun

Kínverska liðið Shanghai Shenhua er tilbúið að borga Tevez 89 milljónir króna á viku eða tvöfalt hærri laun en Messi og Ronaldo fá.

Trausti Hafliðason

Carlos Tevez er um það bil að vinna í kínverska í lottóinu. Bresku götublöðin greina frá því að kínverska liðið Shanghai Shenhua sé búið að senda samning, sem kveður á um 635 þúsund punda vikulaun, yfir Kyrrahafið. Allt sé klárt — argentínski knattspyrnumaðurinn, sem verður 33 ára í febrúar, eigi „bara" eftir að skrifa undir.

Þetta er reyndar ansi stórt „bara" því Tevez er frekar sérlundaður maður. Sem dæmi um sérviskuna spilar hann nú með Boca Juniors, æskufélagi sínu í Argentínu. Þangað fór hann í fyrra frá ítalska stórliðinu Juventus. Hann var þá aðeins 31 árs og hefði vafalaust getað valið úr liðum í Evrópu til spila með. Liðum sem hefðu verið tilbúin að borgaði honum miklu hærri laun en hann fær í heimalandinu. Peningar eru því greinilega ekki allt fyrir Tevez og það verður því fróðlegt að sjá hvað hann gerir.  

Ef Tevez ákveður að halda í víking til Kína verður hann lang launahæsti leikmaður heims með 89 milljónir króna í vikulaun eða 635 þúsund pund, eins og áður sagði. Hinn brasilíski Hulk, sem spilar með Shanghai SIPG, er með 320 þúsund pund á viku. Lionel Messi hjá Barcelona, Ronaldo hjá Real Madríd og Wayne Rooney hjá Man. Utd. eru með í kringum 300 þúsund pund á viku. Pogba liðsfélagi Rooney er með 290 þúsund pund, sem og hinn ítalski Graziano Pelle, sem spilar með kínverska liðinu Shandong Luneng Taishan.

Með Shanghai Shenhua spila leikmenn eins og Demba Ba, sem um tíma lék með ensku liðunum Newcastle Utd. og Chelsea og Fredy Guarín, sem lék áður með Porto og Inter Milan. Sífellt fleiri heimsklassa leikmenn leggja leið sína til Kína enda hafa kínversk knattspyrnulið boðið þeim gull og græna skóga.

Stikkorð: Knattspyrna  • Carlos Tevez