*

Menning & listir 30. maí 2013

Björg Magnúsdóttir: Mín besta tilraun

Ekki þessi týpa er fyrsta bók Bjargar Magnúsdóttir. Bókin kemur út í dag hjá Forlaginu.

Lára Björg Björnsdóttir

„Ég treysti góðum og mikilvægum manni fyrir því að mig langaði að skrifa bók,“ segir Björg Magnúsdóttir rithöfundur en fyrsta bók hennar, Ekki þessi týpa kemur út í dag. „Hann uppveðraðist allur og spurði mig hvernig bók þetta væri sem mig langaði til að skrifa. Ég sagði að það skipti ekki endilega máli á hverju ég byrjaði, það væru svo margar hugmyndir að gerjast í kollinum á mér.“

Sem betur fer náði maðurinn að sannfæra Björgu um að byrja að skrifa eitthvað skemmtilegt, og hún tók hann á orðinu: „Eftir umhugsun komst ég að þeirri niðurstöðu að Ekki þessi týpa væri mín besta tilraun til þess að skrifa eitthvað skemmtilegt. En bókin er ekkert bara skemmtileg, hún hefur alvarlegan undirtón eins og lífið sjálft.“

Persónur bókarinnar eru fjórar vinkonur. Þær eru allar með mjög sterkan karakter og eftir lestur bókarinnar er ekki laust við að lesandinn hugsi hvort þessar manneskjur séu til í alvörunni: „Það eru aðallega tvær persónur í bókinni sem eru til í alvöru og ég þekki mjög vel. Ég er hins vegar búin að lofa þeim að segja ekki hverjar þær eru. Flestir aðrir karakterar í bókinni, líklegast allir, eru byggðir á fólki sem hefur orðið á vegi mínum einhvern tímann. Ég held að það sé óhjákvæmilegt að pikka upp áhugaverð einkenni fólks í kringum sig og vinna áfram með þau, blanda saman við annað, ýkja og draga úr.

Nánar er talað við Björgu Magnúsdóttur í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér.