*

Menning & listir 7. nóvember 2013

Björk keypti miða á Iceland Airwaves

Ritstjóri Rolling Stone segist í fyrsta sinn hafa séð hvað liðsmenn Kraftwerk gerðu á sviði í Hörpu.

Björk Guðmundsdóttir pungaði sjálf út fyrir miða á tónlistarhátíðina Iceland Airwaves sem stóð yfir frá miðri síðustu viku og fram á sunnudagskvöld. Þetta segir David Fricke, ritstjóri hjá bandaríska tímaritinu Rolling Stone. Björk hélt nokkra tónleika á tónlistarhátíðinni árið 2011 og flutti þar lög af plötunni Biophilia.

Fricke skrifar ítarlega færslu um hátíðina á vef Rolling Stone í dag og gerir þar að umtalsefni tónlistarmennina íslensku sem hann hitti og sá, þar á meðal Jónsa í Sigur Rós, sem hann hitti í miðborginni. Fricke segir þá Jónsa hafa þurft að gera hlé á samræðum sínum þegar ferðamenn og aðdáendur hljómsveitarinnar frá Bandaríkjun og Suður-Kóreu vildu taka myndir af honum á farsíma sína. Þá segir hann Björk hafa dansað undir tónum bæði Omar Souleyman og Ghostigital á laugardag.

Eins og fram kom í samtali Fricke við VB.is sem fram fór eftir tónleika Ghostigital í Listasafni Reykjavíkur í Hafnarhúsi hefur hann margoft komið til Íslands. Fyrsta skiptið var árið 1988 þegar hann kom til að taka viðtal við Sykurmolana. Hann sótti tónlistarhátíðina sömuleiðis í fyrra og sá þá Sigur Rós spila í Laugardalshöll. Í skrifum sínum á vef Rolling Stones segist hann hafa stoppað stutt við að þessu sinni eða í aðeins þrjá daga. Það hafi skýrst af því að hann hafi verið að vinna að minningarriti tímaritsins um tónlistarmanninn Lou Reed sem lést í lok október. 

Stuð hjá Kraftwerk

Fricke gerir að umtalsefni nokkrar hljómsveitir á tónlistarhátíðinni, þar á meðal Grísalappalísu, sem honum líkar vel og líkir við bæði Sykurmolana, Linkin Park og Roxy Music, danska bandið Baby in Vain, Amiina og fleiri. Þá fjallar hann ítarlega um tónleika þýsku rafhljómsveitarinnar Kraftwerk sem hann segir standast tímans tönn. Hann segir það hafa vakið sérstaka athygli að þaðan sem hann sat á svölunum í Eldborgarsal Hörpu hafi hann loksins getað séð hvað liðsmenn Kraftwerk voru að gera enda virðist þeir iðulega ekki gera neitt en virðist ýta á takka öðru hverju. Sér til undrunar hafi hann í fyrsta sinn séð Ralf Hütter, eina upphaflega meðlim Kraftwerk, spila fremur hratt á hljómborð í laginu Home Computer. Það hafi nánast merkt að hljómsveitin hafi verið í stuð.