*

Hitt og þetta 24. ágúst 2018

Bláa Lónið í topp 100 hjá Time

Nýopnað hótel Bláa Lónsins er á lista bandaríska tímaritsins Time magazine yfir 100 bestu staði heims 2018.

Bláa Lónið hefur verið valið sem einn af hundrað bestu stöðum heims (world‘s greatest places) 2018  af bandaríska tímaritinu Time magazine.

Í færslu tímaritsins um Lónið segir að eftir efnahagshrunið 2008 hafi Ísland fjárfest duglega í ferðaþjónustu, sem kunni að útskýra stóraukna aðsókn ferðamanna. Bláa Lónið er sagt vinsælasti áfangastaður landsins, og frá því sagt að í 800 ára gömlu hrauninu hafi nú opnað hótel með dýrindis veitingastað, neðanjarðarheilsulind og 62 herbergi, þar af fjórar svítur sem hafi aðgang að einkalónum.

Már Másson, yfirmaður markaðs- og mannauðsmála hjá Bláa Lóninu, segir þetta mikinn heiður, enda sé Time Magazine eitt víðlesnasta tímarit heims. „Athyglin sem nýja hótelið, heilsulindin og veitingastaðurinn hafa fengið, á þeim stutta tíma sem liðinn er frá opnun, er enn ein rósin í hnappagat starfsfólks Bláa Lónsins.“

Þetta er í fyrsta sinn sem Time velur Heimsins bestu staði en þeim er skipt niður í þrjá flokka; þjóðgarða og söfn, veitingastaði og hótel. Listinn er afar fjölbreyttur og telur 100 staði í sex heimsálfum og 48 löndum – allt frá vatnsrennibrautagarði í Texas sem er sniðinn að þörfum barna með sérþarfir yfir til neðansjávarbyggðar á Maldíveyjum og, sem fyrr segir, nýs hótels og heilsulindar Bláa Lónsins.

Stikkorð: Bláa Lónið  • Time magazine