*

Tölvur & tækni 12. júní 2015

BlackBerry íhugar að skipta í Android

BlackBerry gæti gert róttækar breytingar á símum sínum til að klóra í bakkann eftir erfitt gengi undanfarin ár.

Símaframleiðandinn BlackBerry íhugar nú alvarlega að hefja í fyrsta skiptið framleiðslu á snjallsíma með Android stýrikerfinu frá Google. Má líta sem svo á að fyrirtækið viðurkenni ósigur sinnar eigin hönnunar í baráttu við snjallsíma á borð við iPhone og Samsung Galaxy.

Business Insider greinir frá þessu. BlackBerry símarnir voru brautryðjandi á sínum tíma og yfirráðandi á snjallsímamarkaðnum en er nú með innan við eitt prósent markaðshlutdeild. Vonir voru bundnar við að Blackberry 10 línan myndi snúa taflinu við, en þar fór fyrirtækið í glænýjar áttir við hönnun símans. Hins vegar gekk það ekki eftir og segja ónafngreindir heimildarmenn innan fyrirtækisins við Business Insider að nú verði gripið til róttækra aðgerða.

Þessar fréttir fengust ekki staðfestar frá BlackBerry né heldur Google, en séu þessar fréttir sannar gæti fyrsti Android síminn frá þeim fyrrnefndu komið út í haust. Síminn yrði þá líklega bæði með stórum snertiskjá og lyklaborðinu sem einkennt hefur síma fyrirtækisins.

Á hátindi sínum árið 2011 voru starfsmenn BlackBerry 17.500 talsins en í febrúar á þessu ári voru þeir einungis 6.225. Má búast við enn meiri uppsögnum á næstunni samkvæmt tilkynningu frá fyrirtækinu í síðasta mánuði.

Stikkorð: Android  • BlackBerry