*

Tölvur & tækni 18. desember 2014

Blackberry kynnir nýjan gamlan síma

Nýjasti snjallsími Blackberry er mjög í anda klassísku Blackberry-símanna og er með lyklaborð.

Farsímaframleiðandinn Blackberry hefur kynnt til sögunnar nýjan síma, sem reyndar svipar mjög til eldri síma fyrirtækisins. Síminn, sem ber heitið Blackberry Classic, er með lyklaborði eins og gömlu símarnir, en nær allir aðrir snjallsímaframleiðendur hafa skipt lyklaborðum út fyrir snertiskjái.

Með símanum vill Blackberry höfða til kjarnaviðskiptavinahóps síns, starfsfólks fyrirtækja sem notar símann við vinnu sína. Fyrirtækið hefur einnig lagt áherslu á öryggi símans og ágæti rafhlöðunnar.

Árið 2009 var Blackberry með um 50% markaðshlutdeild á bandaríska snjallsímamarkaðnum, en fyrirtækið brást ekki nógu hratt við þeim öru breytingum sem orðið hafa í geiranum undanfarin ár og á nú aðeins lítið brot af markaðnum. Blackberry hefur reynt að markaðssetja snjallsíma með snertiskjám, en hefur orðið lítið ágengt.