*

Tölvur & tækni 31. janúar 2013

Blackberry kynnir tvo nýja snjallsíma

Tækniblaðamenn telja að leynivopnið sé ekki nýi flaggskipssíminn, heldur sá sími sem er með alvöru lyklaborð.

Blackberry kynnti í gær tvo nýja snjallsíma sem keyra á nýjustu útgáfunni af Blackberry stýrikerfinu. Annars vegar er um að ræða Z10 snjallsímann, sem er í takt við flesta aðra slíka síma á markaðnum í dag. Hann er með 4,2 tommu snertiskjá og myndavél. Þessi sími er hugsaður sem nýtt flaggskip Blackberry fyrirtækisins og reiða stjórnendur sig á að síminn muni snúa við rekstrinum. Athuga ber að fyrirtækið, sem hingað til hefur heitað Research In Motion, eða RIM, hefur skipt um nafn og heitir nú Blackberry.

Margir telja hins vegar að hinn nýi síminn, sem ber heitið Q10, sé leynivopnið. Ólíkt nær öllum snjallsímum á markaðnum er þessi sími með alvöru lyklaborð eins og fyrri Blackberry símar og telja fróðir menn að margir, einkum fyrrverandi og núverandi notendur Blackberry síma, vilji hafa slíkt lyklaborð á símunum.

Myndavélin fær ekki háa einkunn

Mikið hefur verið fjallað um símana á tæknisíðum eins og Gizmodo í dag og í gær. Meðal þess sem greinahöfunar þar hafa sagt er að eitt það sniðugasta við nýju símana og stýrikerfið sé sá möguleiki að aðskilja vinnu og heimilislíf í símanum. Aðskilnaðurinn þýðir t.d. að tæknistjóri fyrirtækis getur þurrkað út allt sem er á fyrirtækishlutanum án þess að snerta persónulega hluti á símanum.

Símarnir eru hins vegar ekki fullkomnir og nefnir Gizmodo sérstaklega að myndavélin í Z10 símanum sé skelfileg í því að taka myndir í litlu ljósi. Almennt hefur umfjöllunin hins vegar verið mjög jákvæð en tíminn mun leiða í ljós hvort nýju símarnir séu það sem Blackberry þarf á að halda til að snúa við óheillaþróun síðustu ára.

Stikkorð: Blackberry