*

Veiði 11. júlí 2018

Bleikjan lætur sjá sig

Eftir nokkurra ára niðursveiflu hefur nú orðið aukning í bleikjuveiði.

Trausti Hafliðason

„Urriðaveiðin hefur verið á hægri uppleið í þrjú ár í röð og bleikjuveiðin í tvö ár," segir í skýrslu Hafrannsóknarstofnunar um lax- og silungsveiði 2017."Athygli vekur að aukning hefur verið í bleikjuveiði eftir niðursveiflur undanfarinna ára." 

Stangaveiðimenn veiddu 37.135 staðbundna urriða og sjóbirtinga, á síðasta ári. Langmesta veiðin var á Suðurlandi, þar sem ríflega 19 þúsund urriðar og sjóbirtingar veiddust. Næstmest veiddist á Norðurlandi eystra eða um 8.500 fiskar.  Alls veiddust 27.766 staðbundnar bleikjur og sjóbleikjur í fyrra og komu um 15.500 þeirra á land á Suðurlandi. Veiðivötn bera höfuð og herðar yfir önnur veiðisvæði en þar veiddust ríflega 9.300 urriðar og um  11.800 bleikjur. Í Laxá í Þingeyjarsýslu veiddust um 3.300 urriðar og í Hlíðarvatni veiddust um 1.200 bleikjur.

Með fréttinni fylgir mynd af sex punda bleikju, sem veiddist í Elliðavatni í byrjun júni. Talið er að þetta sé ein stærsta ef ekki stærsta bleikja sem veiðst hefur í vatninu. Frétt um risableikjuna birtist í sérblaðinu Veiði, sem fylgdi Viðskiptablaðinu síðasta mánuði.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.