*

Veiði 16. júní 2014

Bleikjunni fækkar enn

Ekki er vitað um ástæðu þess að bleikjum hefur fækkað í ám og vötnum.

Veiðitölur og talningar á bleikju hafa sýnt að á síðasta áratug hefur bleikju víða fækkað í ám og vötnum hér á landi. Þetta kemur fram í ársskýrslu Veiðimálastofnunar, sem kom út fyrir skömmu.

„Ekki er vitað af hverju það stafar en líklegt er að það tengist hnattrænni hlýnun sem virkar á samkeppnisstöðu tegundarinnar, fæðu, lífeðlisfræðilegu þoli hennar gagnvart umhverfisaðstæðum og sníkjudýrum.“

Í skýrslunni segir að huga þurfi í ríkari mæli að þessum þáttum meðal annars í tengslum við vöktun lífríkis á norðurslóðum, en bleikja sé hentug tegund til slíks þar sem hún hafi útbreiðslu allt umhverfis norðurpólinn og virðist viðkvæm fyrir breytingum á hitastigi. „Á sama tíma og bleikju er víða að fækka hafa sjóbirtingsstofnar verið að stækka í ám á sumum landssvæðum og hugsanlega að yfirtaka þau búsvæði sem bleikjan nýtti áður,“ segir í skýrslunni.

„Frekari rannsókna er þörf til að skilja betur þá þætti sem eru helst ráðandi um þær breytingar sem fram hafa komið í stofnum bleikju og sjóbirtings hér á landi en sú þróun sem fram kemur í veiðitölum er mikilvægur grunnur til þess.“

Stikkorð: Veiði  • Bleikjur