*

Sport & peningar 8. ágúst 2012

Blekktu stuðningsmenn með gylliboðum um ódýra ársmiða

Auglýsingaeftirlitið áminnti Hearts fyrir að villa um fyrir stuðningsmönnum með því að auglýsa ársmiða sem ekki voru til sölu.

Skoska knattspyrnufélagið Heart of Midlothian, sem gjarnan er nefnt Hearts, hefur verið áminnt af eftirliti með auglýsingamálum þar í landi eftir að félagið blekkti stuðningsmenn með auglýsingum um ódýra ársmiða. Í úrskurði auglýsingaeftirlitsins(e. Advertising Standards Authority) kemur fram að félagið hafi blekkt stuðningsmenn með auglýsingum um ódýrustu ársmiðana en stuðningsmenn sem reyndu að kaupa slíka miða komu að tómum kofanum. Þetta kemur fram í frétt BBC um málið.

Félagið bar því við að miðarnir hafi selst mun hraðar en gert var ráð fyrir. Í úrskurði eftirlitsins kemur hins vegar fram að með því að halda áfram auglýsingum hafi félagið villt um fyrir stuðningsmönnum. Miðarnir voru auglýstir í tvo daga á sama tíma og þeir voru ekki lengur til sölu.