*

Sport & peningar 21. ágúst 2011

Blóð, sviti og tár renna saman

Í stað hefðbundinnar líkamsræktar i tækjasölum kjósa margir óhefðbundnar æfingaraðferðir, s.s. Crossfit, Boot Camp eða ­bardagaíþróttir.

Gísli Freyr Valdórsson

Það er helst á tveim tímapunktum á árinu sem fólk flykkist inn í líkamsræktarstöðvar og heitir sér því að nú sé tíminn til að koma sér í form. Þetta gerist helst að sumarfríi loknu og aftur strax eftir áramót.

Árangur Annie Mistar Þórisdóttur á heimsleikunum í Crossfit í lok júlí sl. hefur vart farið framhjá nokkrum manni. Annie Mist sigraði sem kunnugt er og hlaut um leið titilinn hraustasta kona heims auk 250 þúsund dala í verðlaun. Um leið hefur mikið verið fjallað um Crossfit hér á landi en þessi íþrótt hefur notið aukinna vinsælda síðustu 2 ár.

Crossfit vinsælt

En hvað er þetta Crossfit sem allir eru að tala um? Crossfit er líkamsræktarkerfi sem samanstendur af lyftingum s.s. réttstöðulyftum, axlapressum og hnébeygjum, ólympískum lyftingum, hefðbundnum líkamsræktaræfingum s.s. armbeygjum, upphífingum, kviðaæfingum og loks þolæfingum, s.s. hlaupi, róðri, sundi, hjólreiðum og þar fram eftir götunum. Það er því óhætt að segja að Crossfit tekur á flestu því sem leitað er eftir í líkamsrækt, fitubrennslu, auknu þoli, vöðvauppbyggingu og svo frv. Crossfit er nú kennt víða, t.d. í World Class og í Sporthúsinu. Þá opnaði sérstök Crossfit stöð, Crossfit Reykjavík, í Skeifunni í vetur en í samtali við Viðskiptablaðið segir Hrönn Svansdóttir, þjálfari og einn eigenda, að mikil eftirspurn sé eftir því að komast að og að áhuginn hafi aukist nokkuð eftir umfjöllun fjölmiðla um árangur Annie Mistar. Fyrrnefnd Annie Mist er sjálf eigandi og þjálfari Crossfit BC sem er til húsa í höfuðstöðvum Boot Camp. Athygli vekur að Annie Mist og meðeigandi hennar að Crossfit BC, Elvar Þór Karlsson, eru aðeins rétt rúmlega tvítug að aldri.

Heræfingar og bardagar

En það er fleira í boði en Crossfit. Combat Gym í Ármúla býður einnig upp á óhefðbundna líkamsrækt sem samanstendur m.a. af ketilbjöllum, ólympískum lyftingum og líkamsþyngdaræfingum svo eitthvað sé nefnt. Ketilbjöllur njóta mikilla vinsælda í flestum þeim greinum sem hér er fjallað um en þær eru mismunandi að þyngd og hægt er að gera fjöldann allan af ólíkum æfingum með þeim. Boot Camp hefur notið mikilla vinsælda síðustu árin.

Boot Camp er, eins og nafnið gefur til kynna, að mörgu leyti sama þjálfunaraðferð og bandaríski herinn notar við þjálfun sinna bestu hersveita, t.d. Navy Seals. Grunnurinn að Boot Camp þjálfunaraðferðinni kom til þegar Arnaldur Birgir Konráðsson, framkvæmdastjóri Boot Camp, sótti lífvarðanámskeið í Bretlandi og Suður-Afríku. Námskeiðin voru kennd af sérsveitarmönnum og líkamsþjálfunin með því erfiðara sem gerist. Höfuðstöðvar Boot Camp eru við Suðulandsbraut en útibú eru víða um land.

Loks má nefna Mjölni við Mýragötu, en þar er yfirþjálfari sjálfur Gunnar Nelson, sem náð hefur ótrúlegum árangri í frjálsum bardagaíþróttum undanfarin ár. Í Mjölni er meðal annars boðið upp á það sem kallað er Víkingaþrek og eftir því sem fram kemur á heimasíðu félagsins er þjálfurum þess „ekkert heilagt þegar kemur að því að setja saman æfingu.“

Hér hefur verið fjallað um heimsmeistara í Crossfit, æfingar í stíl sérsveitarmanna og bardagaíþróttir. Það er því von að einhver spyrji sig hvort hann hafi nokkuð að gera í einhverja af þessum stöðvum. Raunin er samt sú að allar bjóða þær upp á einhvers konar grunn- eða byrjendanámskeið þannig að allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi óháð núverandi líkamsástandi.

Stikkorð: Boot Camp  • Crossfit  • Combat Gym