*

Sport & peningar 17. september 2016

Blóðsport á uppleið

UFC er í örum vexti um þessar mundir. Tekjur UFC hafa 135-faldast frá 2001 og var fyrirtækið selt fyrir metfé í sumar.

Snorri Páll Gunnarsson

Fáar íþróttir þykja jafn umdeildar og blandaðar bardagalistir. Sumir kjósa að flokka þær frekar undir ofbeldi heldur en íþrótt, og aðrir hafa staðið fast á þeirri skoðun að banna eigi það að tveir fullorðnir geti stigið í hringinn af frjálsum og fúsum vilja, skaddað hvorn annan líkamlega og fengið borgað fyrir það. En jafnvel þeir sem eiga það til að hneykslast á því að heimurinn lagi sig ekki að sínum skoðunum geta ekki neitað því að fjárhagslegur árangur UFC (Ultimate Fighting Championship) undanfarin ár hefur verið ævintýralegur. Á sama tíma endurspeglar það stóraukinn áhuga á bardagalistinni.

Margföldun tekna

UFC er einkafyrirtæki í Las Vegas sem auglýsir blandaðar bardagaíþróttir (e. mixed martial arts, MMA). Fyrirtækið er það stærsta í sínum bransa, en ef afkoma fyrirtækisins endurspeglar vöxt blandaðra bardagaíþrótta hefur engin önnur íþrótt vaxið jafn hratt í Bandaríkjunum og jafnvel í heiminum undanfarin ár og UFC. Fjármál UFC hafa þó á sér nokkurn dularblæ, enda er móðurfélag UFC – Zuffa, LLC – ekki skráð á markaði og hefur því ekki skyldu til að upplýsa opinberlega um fjárhagi Zuffa eða UFC. Þó liggja fyrir brotakenndar tölur um fjármál UFC úr skýrslum Deutsche Bank og matsfyrirtækjanna Moody’s og Standard & Poor's, auk úttekta Forbes, sem segja áhugaverða sögu.

Fyrirtækið var stofnað árið 1993 í Las Vegas og var keypt af spilavítismógúlum – bræðrunum Frank og Lorenzo Fertitta – og viðskiptafélaga þeirra, Dana White, árið 2001. White varð þá forseti UFC og gegnir því starfi enn. Kaupverðið hljóðaði upp á tvær milljónir dollara, en fyrirtækið var þá á jaðri bardagaíþrótta. Tekjurnar á því ári námu 4,5 milljónum dollara, og tapaði tríóið háum fjárhæðum fyrstu fimm árin. Síðan tók fyrirtækið á flug á milli 2005 og 2006 og fékk greiðsluflæði upp á margar milljónir næstu árin. Tekjur UFC náðu í kringum 500 milljónum dollara á milli 2012 og 2014, en slóu síðan met í fyrra þegar brúttótekjur fyrirtækisins námu 609 milljónum. Er hér um að ræða ríflega 135-földun í tekjum á milli 2001 og 2015. Í samanburði við aðrar bandarískar íþróttagreinar er tekjuhlutdeild bardagamanna á vegum UFC þó hlutfallslega lág, en í þeim samanburði hafa verður í huga að fyrirtækið er bæði lítið og ungt. Samhliða þessu tekjuævintýri hafa útistandandi skuldir auk vaxtagreiðslna UFC til lengri tíma aukist stöðugt úr 336 milljónum dollara árið 2007 í 489 milljónir árið 2015, en árleg afborgun fyrirtækisins hefur verið um 22 milljónir að meðaltali frá árinu 2007. Skuldabyrðin hefur þó ekki verið fyrirtækinu þungur baggi – EBITDA fyrirtækisins og EBITDA-hlutfall, sem endurspeglar hversu mikið reksturinn skilar til að standa undir fjármagnskostnaði, sköttum og arði, benda til þess að UFC hafi ráð á skuldastöðunni, og vel það.

Hagnaður UFC árið 2015 var 157,8 milljónir dollara og tvöfaldaðist frá fyrra ári, og var framlegð (e. profit margin) 25%. Til samanburðar var hagnaður fjölbragðaglímufyrirtækisins WWE (World Wrestlign Entertainment) um 30 milljónir.

Í júlí síðastliðinn urðu Fertitta-bræður og Dana White síðan margfaldir milljarðamæringar, er þeir seldur UFC á 2000-földu kaupverði fyrir 4 milljarða dollara til fyrirtækjasamsteypu undir forystu umboðsaðilans William Morris Endeavor. Þýðir það að virði UFC er tæplega þrisvar sinnum rekstrarvirði WWE, sem er um 1,5 milljarðar. Um er að ræða stærstu viðskiptafærslu í sögu íþrótta, en til samanburðar var enska knattspyrnuliðið Manchester United selt til Glazer-fjölskyldunnar fyrir 1,5 milljarð dollara árið 2006.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér.