*

Bílar 7. mars 2016

BMW fagnar 100 ára afmæli í dag

Bæverska mótorverksmiðjan var stofnuð 7. mars árið 1916 undir nafninu Bayerische Flugzeugwerke.

BMW, eða Bayerische Motoren Werke (Bæverska mótorverksmiðjan) var stofnuð fyrir 100 árum. Þann 7. mars árið 1916 var fyrirtækið stofnað. Í fyrstu hét það Bayerische Flugzeugwerke (Flugvélaverksmiðja Bæjaralands) en árið 1922 keypti fjárfestirinn Camillo Castiglioni hreyflaverksmiðju BMW, sem hafði verið stofnuð árið 1917, og sameinaði BFW henni undir nafni BMW.

Í upphafi framleiddi BMW eingöngu flugvélahreyfla. Árið 1917 stjórnaði verkfræðingurinn Max Friz þróun nýs þrýstiloftshreyfils. Flugvél með þessum hreyfli bætti þáverandi heimsmet í háflugi en hún komst upp í 9.760 metra hæð.

Í kjölfar Fyrri heimsstyrjaldarinnar varð fyrirtækið að hætta flugvélaframleiðslu, en samkvæmt Versalasamningnum árið 1919 skuldbundu Þjóðverjar sig til að framleiða ekki flugvélar í fimm ár.

Fyrsta mótorhjólið og bíllinn

Max Friz leiddi þróun á fyrsta mótorhjólinu undir merkjum BMW. Það kom á markað árið 1923 og nefndist R32. Þrátt fyrir að bannið við smíði flugvéla rann út ári síðar hélt smíði mótorhjóla áfram.

Það var ekki fyrr en árið 1929 að fyrsti bíllinn með merki BMW kom á markað. Bíllinn nefndist 3/15 PS en hönnun hans var byggð á Austin 7 frá breska Austin Motor Company. Sá bíll nefndist áður Dixi en BMW keypti framleiðanda hans, Automobilwerk Eisenach, árið 1928.

Hönnun 3/15 PS var svo lítillega breytt og uppfærður bíll kom á markað árið 1932 undir heitinu AM1 eða Automobilkonstruktion München Nr. 1.

Fyrsti BMW-inn hannaður frá grunni

Fyrsti bíllinn sem var hannaður frá grunni af verkfræðingum BMW kom á markað árið 1933. Sá nefndist BMW 303 en bílar byggðir á þessari hönnun var framleiddir fram að Seinna stríði.

Á þessum árum jók BMW mjög áherslu á framleiðslu flugvélahreyfla. Þrátt fyrir það komu nokkrir nýir bílar á markað. Á árunum 1935-1937 komu þrjár nýjar gerðir BMW bíla á markað, meðal annars 328 bíllinn. Hann var sigursæll í kappakstri og með tilkomu hans festi BMW sig í sessi í hugum fólks sem sportbílaframleiðandi.

Framleiðir einnig Rolls Royce og Mini

Í gegnum tíðina hefur BMW átt nokkra aðra bílaframleiðendur. Árið 1994 keypti BMW breska bílaframleiðandann Rover Group, sem m.a. framleiddi Land Rover, en seldi aftur til Ford árið 2000. Við söluna hélt BMW eftir Mini.  BMW keypti réttinn til að framleiða Rolls Royce árið 1998. Auk BMW framleiðir BMW Group því einnig Mini og Rolls Royce.

Stærsti lúxusbílaframleiðandi í heimi

BMW hefur verið stærsti lúxusbílaframleiðandi í heimi frá árinu 2005, þegar bæverski framleiðandinn tók fram úr Mercedes-Benz. BMW hefur haft örugga forystu á Mercedes-Benz og Audi síðustu ár en það breyttist í fyrra þegar Mercedes-Benz jók söluna mikið og nálgaðist BMW.

Stikkorð: BMW