*

Bílar 22. ágúst 2017

BMW M5 með krafta í kögglum

BMW mun kynna nýjan M5 á bílasýningunni í Frankfurt í næsta mánuði. Þetta er fyrsti bíllinn úr smiðju M-deildar BMW sem verður fjórhjóladrifinn.

Það verður feykilegt afl í þessum nýja Bimma en 4,4 lítra V-8 vélin mun skila tæpum 592 hestöflum. Bíllinn er aðeins 3,4 sekúndur úr kyrrstöðu í hundraðið. Bíllinn er með 8 gíra M Steptronic sjálfskiptingu og X-Drive þ.e. fjórhjóladrifi sem er eins og áður segir í fyrsta skipti sem M gerð BMW fær drif á öll hjól.

Bíllinn er með þrjú aksturskerfi, Comfort, Sport og Sport Plus. Spólvörnin dettur sjálfkrafa úr í Sport Plus stillingunni en hægt er að taka hana af þegar ekið er í öðrum aksturskerfum. BMW M5 kemur á 20 tommu felgum og er ansi vígalegur að sjá en lítur að flestu leyti út eins og hefðbundin Fimma.

Það er svo sem ekki leiðum að líkjast. Ný kynslóð Fimmunnar kom einmitt fyrr á árinu og er fagurlega hannaður. Framendinn raunar líkist litla bróður Þristinum og er það vel enda er sá fallegur með indæmum. Þessi nýi M5 á eftir að fanga athyglina á götunum á því leikur enginn vafi.

Stikkorð: BMW  • Sport  • bílasýningar  • Comfort  • Sport plus