*

Bílar 13. júní 2012

BMW M7 gæti orðið að veruleika

Forstjóri BMW í Bandaríkjunum útilokar ekki að M7 verði framleiddur. Bæverski bílaframleiðandinn hefur alltaf harðneitað því.

M línan frá BMW er fyrir þá sem vilja enn meiri kraft og hraða. Utan stærri véla þá tekur búnaður bílanna mið af því að þeir séu keyrðir hratt og búnaður þeirra undir álagi. Bremsurnar eru öflugri, fjöðrunin stífari, sæti og innrétting sportlegri svo eitthvað sé nefnt. M stendur einfaldlega fyrir Motorsport eða aksturíþróttir á íslensku.

Forstjóri BMW í Bandaríkjunum sagði á dögunum að ekki væri útilokað að flaggskip BMW, sjöan, verði í boði í M útgáfu. Bæversku aðalskrifstofurnar hafa ætíð sagt að ekki komi til greina að búa til M7. 

Að sögn bandaríska forstjóra BMW er eftirspurn eftir bílnum bæði í Bandaríkjunum og Kína.

Helstu keppinautar M bílanna eru AMG bílarnir frá Mercedes Benz og S frá Audi. Báðir framleiðendurnir bjóða upp á sportútgáfu af sínum flaggskipum, Mercedes Benz S63 AMG og Audi S8.

Fimm kynslóðir af 7 línunni

BMW setti sjöuna fyrst á markað árið 1977. Fimmta kynslóðin leit dagsins ljós árið 2009. Meðal þeirra sem hafa ekið um á sjöunni má nefna þýska rannsóknarlögrelgumanninn Derrick, Madonnu og Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra. 

Fyrsta kynslóð sjöunnar, E23 . Framleiddur árin 1977-1986.

Önnur kynslóðin, E32. 1986-1994.

Þriðja kynslóðin nefndist E38 og var framleidd 1994-2001.

Fjórða kynslóðin, E65. Bíllinn var framleiddur 2002-2008.

Fimmta og núverandi kynslóð sjöunnar. Ekki er útilokað að sjá megi þennan bíl á næstunni með M merkinu.

Stikkorð: BMW M