
BMW og Toyota ætla í samstarf og framleiða saman léttbyggðan sportbíl með tvinntækni eða að öllu leyti rafdrifinn. Bílaframleiðendurnir tveir stefna einnig á að þróa og framleiða sameiginlega rafgeyma og drifkerfi fyrir rafknúna bíla sem og tækni til að smíða léttbyggða bíla.
Samstarf Toyota og BMW er í sama takti og nýlegt samstarf Mercedes-Benz við Renault og Nissan. Toyota er leiðandi í smíði umhverfisvænna bíla sem nýta sér tvinntækni eða eru knúnir rafmagni en BMW er sérfræðingur í smíði sportbíla og afburða véla. Menn bíða því spenntir eftir þeim afurðum sem koma úr þessu samstarfi.