*

Bílar 2. apríl 2015

BMW selur bíla á Amazon

Rafmagnsbílar frá BMW sem hafa verið vinsælir í Evrópu og Bandaríkjunum verða nú fáanlegir í vefsíðu Amazon í Japan.

Alls eru 46 umboð sem selja rafmagnsbíla frá BMW í Japan. Þessir bílar hafa notið nokkurra vinsælda í Evrópu og Bandaríkjunum en BMW vill reyna að auka markaðshlutdeild sína í Japan og hefur því brugðið á það ráð að auglýsa bílana til sölu á vefsíðunni Amazon.

Tvær gerðir eru auglýstar til sölu á vefsíðunni en það eru BMW i3 sem kemst 219 kílómetra á einni rafmagnshleðslu og i3 Range Extender sem dregur 300 kílómetra.

Þeir viðskiptavinir Amazon sem eru vanir að klára kaupin með einum smelli verða hins vegar fyrir vonbrigðum því þegar bíllinn er kominn í „innkaupakörfuna" þurfa þeir að bíða eftir símtali frá BMW. Framleiðandinn þarf að fá staðfestingu á því að kaupandinn hafi bílastæði fyrir nýja bílinn og aðgang að hleðslu. Greint er frá þessu á vefsíðunni japantoday.com.

Stikkorð: BMW  • rafmagnsbíll