*

Hitt og þetta 13. október 2013

Böggaðu yfirmanninn

Heiðarlegt og gott grín út í yfirmanninn er alltaf ógurlega skemmtilegt og gerir stórkostlega hluti fyrir móralinn á vinnustaðnum.

Lára Björg Björnsdóttir

Ýmislegt skemmtilegt er hægt að gera til að stytta fólki stundirnar á löngum vinnudögum. Grín út í yfirmanninn klikkar aldrei. Gott er þó að láta gamanið ekki fara út í öfgar því enginn vill missa vinnuna bara út af smá gríni. Skoðum nokkra góða djóka sem hægt er að gera: 

Allir á skrifstofunni fá sér nákvæmlega sömu farsímahringingu og yfirmaðurinn. Þeir hringja svo hver í annan svo lítið beri á, til dæmis á viðkvæmum augnablikum á starfsmannafundum, þegar yfirmaðurinn er í miðju kafi að ausa sér súpu í mötuneytinu, þegar hún er að hrósa mestu yfirmannasleikjunni fyrir framan alla og svo framvegis.

Laumaðu sjóveikispillum í kaffið hjá yfirmanninum og farðu á trúnó með honum í kaffitímanum. Snapptjattaðu brotum af því besta á vinnufélagana.

Settu post-it miða undir músina. Þetta er galið vesen fyrir þann sem lendir í þessu. Tölvumaðurinn mætir, tengir snúrur hér og þar og allir sveittir og kannski eftir þrjá tíma fattar einhver að kíkja undir músina.

Hringdu í Dýraríkið. Pantaðu fimm hamstra og sendu heim til barna yfirmanna helstu keppinauta fyrirtækisins í nafni yfirmannsins. Láttu raka í feldinn: „Okkar fyrirtæki er betra en fyrirtæki pabba þíns/mömmu þinnar”.

Ef yfirmaðurinn bregður út af vananum og kemur með eitthvað nýtt í vinnuna skaltu spyrja út í það. Ný tegund af kaffi? Var síminn að hringja? Er verið að nota nýtt krem kannski? Þér er ekkert óviðkomandi. Ef þú sérð til dæmis sárasmyrsl eða pilluglas á borðinu skaltu spyrja: „Ertu með sár? Ertu á sýklalyfjum?” og þar fram eftir götunum.

Labbaðu til yfirmannsins í tíma og ótíma og gefðu honum axlanudd. Segðu að þú sjáir vöðvabólguna í augunum á honum ef hann reynir að mótmæla.

Ef hún hlær, annaðhvort við tölvuna eða í símann, skaltu undantekningalaust spyrja: „Hvað er svona fyndið?”

Ef yfirmaðurinn geispar spurðu þá hvernig hann svaf. Bjóddu verkjatöflur ef hann virkar pirraður, alltaf. 

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu þar sem má lesa um fleiri aðferðir til að bögga yfirmanninn. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér.

Stikkorð: Gaman  • Fjör