*

Menning & listir 12. október 2017

Bókalestur Haralds og Ástu í sumar

Haraldur Þórðarson forstjóri Fossa og Ásta Sigríður Fjeldsted sögðu frá sínum bókalestri í sumar.

Höskuldur Marselíusarson

Hvaða bækur stóðu upp úr hjá áhrifafólki í íslensku samfélagi í sumar var tilefni fyrirspurnar Viðskiptablaðsins til nokkurra vel valinna einstaklinga. Guðjón Auðunsson forstjóri Reita og Helga Hlín Hákonardóttir í Strategíu sögðu frá bókum um æskuslóðir og nauðsyn þess að afhjúpa kreddur, en einnig var rætt við Harald Þórðarson forstjóra Fossa markaða og Ástu Sigríði Fjeldsted framkvæmdastjóra Viðskiptaráðs.

Haraldar segir hér frá bókum um ótrúleg mannréttindabrot í Rússlandi samfélagsins gagnvart fjárfestum, sem og hvernig hugarheimur fjárfesta vítt og breytt um heiminn er mismunandi. Sigríður Ásthildur segir svo frá afmælisriti ráðsins sem verið sé að koma út, auk bóka um brjóstagjöf og hvernig best sé að stýra eigin vinnu þrátt fyrir stöðugt áreiti nútímans.

Hugarheimur fjárfesta, valdníðsla og mannréttindabrot

Haraldur Þórðarson, forstjóri Fossa markaða, nefndi fyrst bókina Red Notice: A True Story of High Finance, Murder, and One Man’s Fight for Justice eftir Bill Browder. 

„Um er að ræða magnaða frásögn manns sem leitar fjárfestingatækifæra í Austur Evrópu undir lok síðustu aldar. Hann stofnar vogunarsjóð í Rússlandi og allt gengur vel á meðan hagsmunir hans fara saman við hagsmuni yfirvalda þar í landi,“ segir Haraldur. 

„Þegar það hins vegar breytist hefst atburðarás valdníðslu og mannréttindabrota sem á sér fáar líkar. Bókin er frásögn frá atburðum sem gerðust í raun og veru sem gerir lesturinn ennþá eftirminnilegri og það er í raun ótrúlegt að svona hafi viðgengist í okkar samtíma.“ 

Haraldur nefnir einnig aðra bók af svipuðu meiði, Inside the House of Money: Top Hedge Fund Traders on Profiting in a Global Market eftir Steven Drobny. 

„Þetta er bók sem gefur góða innsýn inn í hugarheim fjárfesta sem leita tækifæra á mörkuðum út um allan heim, en það er í raun og veru sérþjóðflokkur. Aðferðafræði þeirra við að velja sér markaði til að fjárfesta á er áhugaverð þótt hún geti verið ærið misjöfn,“ segir Haraldur sem þótti sérstaklega skemmtilegt að lesa um fólk sem hann þekkti til persónulega í bókinni. 

„Þetta eru aðilar sem maður hefur hitt fyrir á ferðalögum í gegnum tíðina, iðulega á fundum þar sem Ísland er rætt.“ Haraldur las þó ekki einungis fjármálatengdar bækur á árinu. 

„Það er líka vert að nefna að ég las líka Náttblindu eftir Ragnar Jónasson. Þetta var fyrsta bókin eftir hann sem ég hef lesið og greip hún mig fljótt. Skemmtileg uppbygging og afbragðs afþreying heilt yfir. Ég mun lesa fleiri bækur eftir hann.“

Hálfbrenglaður vinnukúltúr og brjóstagjöf 

Ásta Sigríður Fjeldsted, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs nefnir fyrst til sögunnar bók sem hún átti að lesa fyrir bókaklúbb sem hún segist enn ekki hafa náð að mæta í, en það var bókin Deep Work: Rules for Focused Success in a Distracted World eftir Cal Newport. 

„En ég varð alveg dolfallin yfir hversu vel hún fangar hálfbrenglaðan vinnukúltúr og nálgun okkar á dagleg viðfangsefni þar sem hraði er oft á tíðum farinn að skipta meira máli en dýpt og gæði. Undir stanslausu áreiti smáskilaboða, tilkynninga og tölvupósta eigum við ekki séns á að ná fullri einbeitingu og komast á almennilegt flug – sem er ein besta tilfinning í heimi og leiðir af sér hvað verðmætustu vinnuna,“ segir Ásta sem sett hefur upp eins konar bókasafn á skrifstofunni fyrir slíka djúpa vinnu. 

„Ég kemst ekki hjá því að nefna Hátíðarrit VÍ, sem við hjá Viðskiptaráði höfum unnið að undanfarna mánuði í samráði við sagnfræðinga og aðildarfélaga þar sem litið er um öxl yfir 100 ára sögu ráðsins. Sagan er sífellt að endurtaka sig og enn sömu grundvallarmálin í umræðunni, eins og einkarekstur í samkeppni við ríkisrekstur, höft á viðskiptalífið, skattlagning, launamál, verðbólga, vaxtastig og svo framvegis.“ 

Vinnan er þó ekki það eina sem á huga Ástu eins og vakti athygli á vefmiðlum nýlega þegar hún mætti með unga dóttur sína og manns síns, Bolla Thoroddsen, í viðtal á ráðstefnu WTO. 

„Að lokum er það bók sem ég hefði aldrei trúað að ég færi að lesa með jafnmikilli ákefð, en brjóstagjöf er ekkert grín,“ segir Ásta um bókina Breastfeeding Made Simple: Seven Natural Laws for Nursing Mothers eftir Kathleen Kendall-Tackett and Nancy Mohrbacher. 

„Í þessari bók er farið yfir atriði sem „enginn sagði þér“ er tengjast vel heppnaðri brjóstagjöf. Ég ól barn okkar Bolla í Japan og þar var takmarkaða aðstoð að fá og fór ég því á fullt í þennan lestur til að vera tilbúin í þetta nýja verkefni. Ég var heppin og gjöfin gengur vel – en ég held að það sé allt of mikið feimnismál enn að tala um hversu erfiðlega og illa þetta getur gengið.“